Áhugaverðir staðir

Áhugaverðir staðir

Á öllu Costa Blanca svæðinu eru ótalmargir áhugaverðir staðir sem vert er að skoða en auðvitað fer það eftir áhugasviði hvers og eins hvaða staðir teljast áhugaverðir.

Við viljum nefna hér nokkra staði sem eru sérstakir fyrir það hve einstakir þeir eru.

 

Guadalest:
Guadalest er eitt sérstæðasta fjallaþorp Spánar. Íbúar þorpsins eru aðeins um 200 talsins en yfir tvær milljónir ferðamanna heimsækja þorpið á hverju ári sem gerir Guadalest að einum fjölsóttasta ferðamannastað Spánar.

Það er mjög tilkomumikið að aka leiðina upp að Guadalest en ekið er sem leið liggur framhjá "Terra Metica" skemmtigarðinum og afleggjaranum niður til Benidorm og beint upp til fjalla. Vegurinn til Guadalest er malbikaður en liggur oft bugðóttur utan í bröttum hlíðum fjallsins. Það er mjög eftirminnilegt að aka þessa leið.

Í Guadalestþorpinu er gamalt máravirki frá 8.öld, byggt á kletti í um 900 metra hæð yfir sjávarmáli. Eru kastalarústirnar til vitnis um stormasama sögu þess. Þræða þarf um fimm metra löng göng í gengum klett til þess að komast að elsta hluta þorpsins, en efst trónir krikjugarðurinn sem býður upp á einstakt útsýni yfir Guadalest dalinn og nærliggjandi sveitir. Frægastur er turninn "Peñon de La Alcalá" sem var notaður til að fylgjast með mannaferðum í dalnum fyrir neðan.

Einnig er að finna í þorpinu tvö söfn, "smámunasafnið Belen" og pyntingasafn. Það er mikil upplifun að koma inn í safnið þar sem litlu dúkkuhúsin eru til sýnis. Þau eru með öllum smáatriðum og svo á hæðinni fyrir ofan er búið að útbúa stórt fjallaþorp úr þessum litlu húsum og öllu tilheyrandi. Þorpsbúar eru frægir fyrir handverk, t.d. handsaumaða dúka, körfugerð og barnaföt. Hægt er að nálgast vörurnar í verslunum sem eru við þröngar götur þorpsins þar sem þær eru höggnar inn í bergið.

 

 

 


Algar Fossar:
Algar fossar eru stórkostleg náttúruperla upp í fjöllunum fyrir ofan Altea en ekin er sama leið eins og farið er upp í fjallaþorpið Guadalest. Það er því mjög góð dagsferð að heimsækja fyrst Guadales og fara síðan í Algar fossana. Þar er hægt að synda í tæru og köldu vatninu og hoppa af klettum ofan í djúpa hyli og skemmta sér konunglega.  Göngustígar eru meðfram fossunum þar sem hægt er að ganga upp með ánni og finna sér minni laugar til að synda í. Það er ekki auðvelt að finna þvílíka náttúruperlu sem þessa.

Þegar maður kemur að fossunum eru nokkrir veitingastaðir, barir, lítið járnbrautar safn og minjagripabúðir sem selja ýmsan varning og þar á meðal "nisperos" þar sem það eru mjög margir nispero lundir í nágrenni fossanna. Mikil gróðursæld er í nágrenni fossanna og hægt að ganga að safninu “Arboretum” sem er náttúrulegur kryddjurtagarður þar sem hægt er að finna flestar kryddjurtir miðjarðarhafsins. Þar er líka lífrænt safn með lækningar- og aromatic jurtum, olíum og ilmvötnum.  Hægt er að kaupa þær vörur sem þar er verið að sýna.
Við fossana er einnig búið að útbúa góða aðstöðu fyrir fólk þar sem upplagt er að borða nedtið sitt en þar eru borð, bekkir og grillaðstaða ásamt klósettum og sturtum.

Canalobre dropahellarnir:
Nærri Busot (um 3 km) og um 24 km norður af Alicante eru Canelobre hellarnir sem eru stórfenglegir dropahellar. Leiðin að hellunum er víðast hvar vel merkt en gott er að setja stefnuna á Busot ef ekið er eftir korti. Stærsti hellirinn “Cuevas del Canalobre”  er um 150 metrar að lengd og þar eru miklir dropasteinar eða ofvaxin krýlukerti. Þessi stóri hellir sem er vel upplýstur í miklum litum hefur einskæran hljómburð og þar eru oft haldnir tónleikar og hátíðir en í hellinum er rúmgott svið. Inngangurinn í hellana er hátt uppi í hlíðum “Cabezón de Oro (Golden Head) eða í 700 metra hæð yfir sjávarmáli og þaðan hafa gestir hellana mikið útsýni yfir Alicante hérað og til Miðjarðarhafsins. Þó skal það ítrekað að yfir hásumarið getur verið mikil mannmergð á svæðinu og loftslagið þurrt og heitt þannig að gott er að hafa vatnflöskuna sér við hlið.

Þegar komið er inn í dropahellana er leiðsögumaður sem leiðir gestina í hóðum um hellana um segir frá öllu því sem augum ber um leið og gengið er um hlykjótta 170 metra leið um göngustíga hellana. Þess má geta til fróðleiks að þessi stórmerkilegu dropasteinar hafa myndast á milljónum ára með þeim hætti að vatnið sem dropar niður  innheldur óvenju mikið magn steinefna og við það hefur vatnið umbreyst í þessar steinastrýtur.
Nokkrir göngustígar eru í næsta umhverfi við hellana og gaman er að ganga þar um.
Hellarnir eru opnir allt árið um kring. Frá og með 1.október til 20. júní eru opnunartímar
frá 11:00 til 17:50. Aðra daga ársins er opnunartíminn frá 10:30 til 19:50.

Els Arcs
Þessi áhugaverði tvöfaldi klettabogi er á Benidorm svæðinu. Hann er nálægt fjallaþorpinu Castell de Castells. Ef ferðast er suður frá San Antonio á E-15 á að beygja vestur á exit 63 og þá eru um 27 km að þorpinu. Fá svo betri leiðbeiningar þar. Gaman er að fá sér göngutúr upp að boganum og njóta útiverunnar.