Skrifað 10.11.2014

Styttist í lokaskil á spænsku skattaskýrslunni.

Allir Íslendingar sem eiga fasteign á Spáni og hafa ekki fasta búsetu á Spáni þurfa í síðasta lagi fyrir 31. desember næstkomandi að standa skil á hinni árlegu skattaskýrslu fyrir árið 2013 til spænskra skattayfirvalda. Ella getur fasteignaeigandinn fengið háar sektir og spænskir bankareikningar jafnvel frystir.

Samkvæmt spænskum lögum þarf að standa skil á þessari skýrslu þó engar raunverulegar tekjur séu fyrir hendi á Spáni.

Spænsk skattalöggjöf er nefnilega þannig uppsett að reiknað er með að erlendir fasteignaeigendur sem ekki eiga fasta búsetu á Spáni hafi ákveðnar ímyndaðar tekjur af fasteign sinni og því beri að greiða þennan skatt sem er ekki hár. Fjárhæð skattsins er ákvarðaður eftir opinberu matsverði eignarinnar (valor catastral) og er skatturinn reiknaður á hvern einstakling sem þýðir að ef hjón eru sameiginlegir eigendur (50%-50%) þá þarf að standa skil á sitt hvorri skattaskýrslunni og hvor aðili greiðir aðeins skatt í samræmi við hlutfallslega eign sína í fasteigninni.

Mikið er um það íslenskir fasteignaeigendur haldi að þessi skattur sé hinn árlegi SUMA skattur en svo er aldeilis ekki. Einnig er mjög mikið um það að íslenskir fasteignaeigendur hafa ekki verið upplýstir um þessar skyldur sínar þegar gengið var frá fasteignakaupunum á sínum tíma hjá fasteignasalanum.

Margir Íslendingar hafa hunsað þessar skattskýrslugerð og hugsað með sér að þeir væru ekki með fasta búsetu á Spáni og greiddu sína skatta og skyldur á Íslandi og eins að þeir muni selja fasteignina einhvern tímann síðar og greiða þá tilskylda skatta við söluna. Þetta er mikill misskilningur því þegar gengið er frá sölu á fasteign hjá seljanda sem er ekki með fasta búsetu þá þarf Sýslumaðurinn (Notary) að sjá til þess að 3% af uppgefnu söluverði eignarinnar sé haldið eftir fyrir spænsk skattayfirvöld. Nefna má þetta sem ákveðinn vörsluskatt sem spænski skatturinn (Hacienda) heldur eftir þar til þeir eru búnir að ganga úr skugga um það að viðkomandi seljandi hafi gert árlegar skattaskýrslur og hafi greitt sína skatta og skyldur eftir því. Ef það hefur ekki verið gert getur skattstofan haldið þessum 3% eftir þar til seljandinn hefur gert skil á þessum árlegum sköttum sem í flestum tilfellum yrði mun lægri fjárhæð þegar uppi er staðið en þessi 3% vörsluskattur.

Það gæti tekið óratíma og jafnvel nokkur ár að fá slíkan skatt endurgreiddan en ef skattaskýrslunar hafa verið gerðar samviskulega árlega þá er ekki neitt vandamál að fá þessi 3% til baka en slík endurgreiðsla tekur aðeins nokkra mánuði.

Það margborgar sig því að standa skil á hinum árlegum skattaskýrslum og greiða tilskilda skatta sem eru ekki háir. Sem dæmi getur skatturinn ásamt þóknun við skattskýrslugerð numið um 150-200 evrur á mann miðað við 3ja svefnherb. hús.

Útreiknaður skattur er skuldfærður beint út af bankareikningi viðskiptavinarins en þóknun við skattskýrslugerðina er unnt að greiða í íslenskum krónum.

Hrafnhildur Eiriksdóttir starfsmaður Costablanca mun að þessu sinni taka að sér þessa skattskýrslugerð fyrir íslenska fasteignaeigendur á Spáni en Hrafnhildur er reynslubolti í þessum málum eftir að hafa starfað til fjölda ára sem útibússtjóri á Spáni. Vinsamlegast sendið tölvupóst á [email protected].is til að fá frekari upplýsingar.