Skrifað 07.07.2014

Íslenskur piltur lést af slysförum í Terra Mitica í dag

Samkvæmt spænskum fjölmiðlum síðdegis lést 18 ára íslenskur piltur af slysförum í skemmtigarðinum Terra Mitica í Benidorm. Hann var í einskonar rússíbana sem er kallaður “Inferno” (sjá hér) með föður sínum, bróður og vini og féll 10-15 metra niður til jarðar eftir að öryggisbelti gáfu sig. Rússibaninn er í svokölluðu Roma svæði skemmtigarðsins og var opnaður árið 2007. Þetta tæki snýst í 360 gráður og getur náð allt að 60 km hraða. Slysið varð er sætin voru á hvolfi.
Eftir heimildum José Marcet, sem er í öryggisvarnarráði Benidorm, var ungi pilturinn í fríi ásamt foreldrum sínum, bróður og vini. Þau dvöldu öll i Torrevieja en höfðu ákveðið að eyða deginum í skemmtigarðinum í Benidorm.
Ekki er vitað með vissu hvort öryggisbeltin voru ekki fest á réttan hátt eða hvort eitthvað gaf sig í vélarbúnaði tækisins.
Ungi pilturinn féll til jarðar og fékk mörg slæm beinbrot og önnur alvarleg sár og var enn á lífi þegar sjúkrabíll kom á staðinn. Hann lést í sjúkrabílnum eftir að hafa fengið hjartastopp um klukkan 17.30
Lögreglan er að rannsaka orsök slyssins og hefur tækinu verið lokað á meðan rannsókn málsins stendur yfir. Forsvarsmenn skemmtigarðsins hafa gefið út yfirlýsingu um að öryggisbúnaður allra tækja uppfylli öll ströngustu skilyrði um öryggi. Þeir harma mjög þennan atburð og votta fjölskyldu hins látna samúð sína.