Skrifað 05.11.2013

Ryanair tapar dómsmáli fyrir spænskum dómsstól

Margir íslendingar hafa flogið með lágfargjaldaflugfélaginu Ryanair og verið þess áskynja að flugfélagið er með mjög íþyngjandi bókunar- og ferðaskilmála og mjög svo sérstaka verðskrá. Nú hefur Ryanair verið dæmt af dómstóli í Madrid til að aflétta 8 íþyngjandi ferðaskilmálum sem félagið hefur haft við líði gagnvart sínum viðskiptavinum. Sem dæmi má nefna að félagið hefur rukkað viðskiptavini félagsins við innritunarborðið á Spáni um 70 evrur eða um kr. 12.000 ef viðskiptavinurinn hefur ekki innritað sig á netinu og prentað út brottfararspjaldið fyrir brottför. Einnig hefur dómstóllinn dæmt það íþyngjandi að flugfarþeginn megi ekki hafa með sér um borð fríhafnarpoka eða litla tösku samfara því að vera með hina svokölluðu flugfreyjutösku. Ryanair hefur lýst því yfir að þeir muni áfrýja þessum dómi en ætla samt á næsta ári að taka tilliti til þessarra atriða og breyta um verklag hjá sér um leið verðskránni.