Endurgreiðsla á lántökuskatti - Lægri kostnaður

Í október síðastliðnum féll tímamótadómur fyrir Hæstarétti Spánar sem snertir alla þá sem hafa tekið og munu taka lán hjá spænskum bönkum. Í stuttu máli sneri Hæstiréttur við dómi undirréttar og komst að þeirri niðustöðu að lántakandinn á ekki að greiða allan kostnað og gjöld við þinglýsingu lánagagna hjá Notaria heldur sé það lánveitandinn sem á að greiða megnið af þeim kostnaði þar sem það séu hagsmunir lánveitandans að þinglýsa þessum lánagögnum. 

Eftir samtöl við kollega mína á Spáni þýðir þetta með öðrum orðum að allir þeir viðskiptavinir Spánarheimila sem hafa tekið lán í spænskum banka á síðastliðnum 4 árum hafa núna eignast kröfu til endurgreiðslu á hluta af þessum lánakostnaði eða réttara sagt á svokölluðum AJD sköttum sem voru hluti af heildarlántökukostnaði sem lánveitandinn rukkaði við lánveitinguna. Þessi AJD skattur er opinber skattur sem greiddur er til spænskra skattayfirvalda en bankarnir hafa verið að rukka lántakandann þennann skatt sem nú skv. dómi Hæstaréttar á að vera að fullu greiddur af hálfu bankans en ekki lántakandans. Fjárhæð þessa skatts getur numið frá allt að nokkuð hundruðum evra og upp í þúsundir evra eða allt eftir heildarlánsfjárhæðinni. 

Þegar þetta er ritað hefur undirritaður sent inn formlegt erindi á alla þá banka sem viðskiptavinir Spánarheimila hafa tekið lán í með ósk um skýr svör hvernig viðskiptavinir Spánarheimila eigi að bera sig að varðandi endugreiðslu á þessum skatti. Það er ekki enn ljóst hvert eigi að beina kröfunni um endurgreiðslu þ.e.a.s. til bankans sjálfs sem rukkaði þennan skatt eða til spænskra skattayfirvalda. Við munum upplýsa ykkur öll um framvindu þessa máls varðandi alla þá viðskiptavini sem þegar hafa tekið lán en öll ný lán frá spænskum bönkum verða frá og með núna ekki með þessum skatti sem hluti lántökukostnaðar sem kaupandi þarf að greiða. 

kv Bjarni Sigurðsson lögfræðingur