Golfvellirnir

Las Colinas

Las Colinas er perlan meðal fjölmargra glæsilegra golfvalla á Alicante-svæðinu. Margverðlaunaður og í hávegum hafður meðal allra þeirra sem hann hafa spilað. Þá má nefna að völlurinn hefur verið notaður nokkur ár í röð í evrópsku mótaröðinni, ekki að ófyrirsynju. Um er að ræða golfvöll sem er par 71 og hannaður af Cabell B. Robinson, sem á heiðurinn af þekktum golfvöllum á borð við La Reserva í Sotogrande og Finca Cortesin á Costa del Sol á Spáni, svo einhverjir séu nefndir. Völlurinn er til þess að gera nýr – hann var tekinn í notkun 2010 –liggur í hring í dalverpi og er umlukinn hæðum. Er sérstaklega lagt uppúr því af Robinson að völlurinn falli inn í landslagið. Hver hola sérstök. Þeir sem kunna spænsku vita að colinas þýðir hólar; völlurinn er langt í frá flatneskjulegur. Þeir sem spila Las Colinas taka eftir því að öll umhirða er til fyrirmyndar, niður í smæstu atriði þannig að unun er að fara þar um. Í klúbbhúsinu má finna góðan veitingastað og bar. Þar er að finna allt sem nöfnum tjáir að nefna og tengist golfiðkun – þetta nálgast að mega heita paradís golfarans og er erfitt er að stilla sig um að nota efsta stig lýsingarorða þegar reynt er að lýsa Las Colinas. Fjölbreyttur gróður og landslag umlykja völlinn en einkennandi eru hólar, drifahvítar sandglompur og svo tjarnir og aðrar vatnshindranir.

Erfitt er að taka einhverja eina holu eða braut út úr til dæmis, þær eru allar skemmtilegar og hafa sín sérkenni en þó má nefna par 3 holurnar sem eru sérlega eftirminnilegar; 7. brautin er stutt eða um 100 metrar og 14. hola sem er ákaflega krefjandi, varin af læk sem rennur framan við flötina, vatni á vinstri hönd og risasandglompu á hægri hönd – hindranir eru allt í kringum flötina. Brautin sú er 155 m af gulum og 124 m af rauðum.

Las Colinas golfvöllurinn hefur verið valinn besti golfvöllur Spánar árið 2015m 2016 og 2017 og þau sömu ár valinn "Spain Leading Golf Resort". Að auki hefur tímaritið Golf Magazine valið völlinn á lista yfir 100 "most exciting golf course in the world". Hér er því um einstakt tækifæri fyrir þátttakendur Costa Blanca Open 2018 að fá að spila þennan vinsæla og margrómaða golfvöll. Heimasíða Las Colinas er hér 

Campoamor (ekki í mótinu sjálfu en unnt að spila á frídögum)

Campoamor-golfvöllurinn er alveg einstaklega friðsæll og vinalegur golfvöllur. Hann er staðsettur í ákaflega fögru umhverfi, skógi vöxnu – fimm kílómetra frá ströndinni, en í góðu skjóli frá hafgolunni og í tíu kílómetra fjarlægð frá flugvellinum í Alicante. Völlinn hannaði Carmelo Cqarcía Caselles og var hann vígður árið 1989, þannig að um er að ræða allgróinn völl sem margir Íslendingar þekkja vel; golfarar hafa verið duglegir að heimsækja Torrevieja-svæðið í gegnum tíðina og ekki að ástæðulausu. Völlurinn er 6203 metra langur og par 72. Þó Campoamor sé skógarvöllur, pálma- og appelsínutré ramma brautirnar inn, eru fæstar brautanna þröngar og völlurinn víðast hvar ekki refsiglaður. Ættu flestir að geta notið þess að spila völlinn burtséð frá því hversu langt þeir eru komnir í íþróttinni góðu. Fyrri níu holum vallarins má lýsa þannig en seinni níu eru fjölbreyttari en þar liggur völlurinn í meira landslagi. Má til dæmis nefna 11. holuna en þar geta þeir hinir djarfari og högglengri stytt sér leið yfir skóg inná flöt með velheppnuðu skoti. Og átt jafnvel möguleika á erni.

Einkennandi fyrir völlinn er einstaklega glæsilegt klúbbhús sem tengist fjögurra stjörnu hóteli sem þarna stendur. Sérlega gott veitingahús er við völlinn og á veröndinni þar fyrir framan má sjá til strandarinnar, frá Torrevieja til La Manga del Mar Menor, ef skyggni er gott. Góð æfingaaðstaða er við völlinn en á þar hefur hinn vinsæli golfþjálfari Ívar Hauksson starfað sem yfirkennari. Vart er hægt að hugsa sér betri stað til að bæta sitt golf en einmitt á Campoamor. Sjá nánar um Campoamor golfvöllinn hér 
 

Las Ramblas 

 

Las Ramblas er sannarlega ævintýralegur völlur – annað hvort elska golfarar að hata völlinn eða elska hann skilyrðislaust. Sem þýðir þá einfaldlega það að þetta er völlur sem allir golfarar verða að reyna sig á. Í það minnsta einu sinni.

Um er að ræða völl sem vígður var 1991, er par 72, 5807 metra langur og staðsettur milli tveggja mikilla gljúfra í námunda við strönd Miðjarðarhafsins. Einsleitni er orð sem að manni ætti ekki einu sinni að detta í hug þegar þessi völlur er annars vegar. Brautir og flatir hver um sig eru einstakar. Öll umhirða og viðhald er þarna til fyrirmyndar.

Hönnuðurinn Pepe Gancendo hefur hlotið mikið lof fyrir mikla útsjónarsemi við útfærslu vallarins í þessu mikla landslagi, umhverfið er vaxið furutrjám og svo náttúrulegum vatnsfarvegum og niðurstaðan er óhjákvæmilega ákaflega krefjandi völlur. Á völdum stöðum hafa snjallir innfæddir sölumenn komið sér fyrir og selja golfkúlur í netpokum; nokkuð sem margir þiggja fegins hendi eftir að hafa mátt sjá á eftir kúlum sínum ofan í djúpa árfarvegi.

Hér skiptir öllu máli að vita hvað maður er að gera; leikskipulag þarf að vera á hreinu og svo náttúrlega getan til að slá þannig að skipulagið haldi. Lesandinn er líklega búinn að reikna það út að hér skiptir andlega hliðin, þessi sem gerir golfið að því sem það er, öllu máli: að halda haus. Á Las Ramblas munu golfarar komast að því úr hverju þeir eru gerðir. Að sigra völlinn er að sigra sjálfan sig.

Lo Romero

 

Lo Romero golfvöllurinn er tiltölulega nýr völlur en hann var opnaður árið 2008. Þetta er nýtískulegur völlur og í boði er, fyrir þá tæknivæddu, að hlaða niður á síma eða iPad sérstöku appi þar sem finna má greinargóðar lýsingar á vellinum og hverri holu fyrir sig.

Völlurinn er staðsettur í grennd við Costa Blanca Strandlengjuna og Costa Calida strendurnar. Hönnuðir eru þeir Jorge Gallén og Enric Soler, völlurinn er par 72, 6061 metrar að lengd. Þeir Gallén og Soler leggja uppúr því að kylfingarnir fái að reyna sem flestar kylfur í pokanum, og það gera þeir með úthugsaðri staðsetningu á fjölmörgum glompum vallarins sem og tjörnum. Völlurinn er ákaflega fallegur og við brautirnar má sjá appelsínu- og sítrónutré.

Fyrri níu holurnar taka mjög mið af landslaginu en seinni holurnar eru hins vegar „hannaðar“; eða manngerðar. Þar sem Lo Romero er staðsettur þetta nærri hafi má gera ráð fyrir því að hafgola geti haft áhrif á leik.

Þekktasta hola vallarins og þó víðar væri leitað, einkennisholan sjálf, er sú 18. Brautin býður uppá ýmsar hættur, runna og glompur og og allan tímann blasir við áskorunin sjálf; flötin sem er eyja í tjörn. 356 metrar af gulum teig en 302 af þeim rauða. Þarna þurfa golfarar að hafa hausinn í lagi. Þeir högglengri og djarfari eiga möguleika á að ná inná flöt í tveimur höggum en þeir sem eru styttri gera best í því að leggja upp í öðru höggi og eiga þá stutt högg að holu, yfir vatnið.


Roda Golf

Roda golf sker sig að nokkru leyti úr þeirri ríkulegu golfvallaflóru sem um ræðir á Alicante-svæðinu – en, ákaflega skemmtilegur; völlurinn er staðsettur á Costa Calida, er samhangandi við strandsvæðið þar og glæsilega orlofshúsabyggð. Völlurinn er par 72, hann er 5819 metra langur af gulum teigum, 5244 af rauðum en hönnuðurinn er hinn virti Dave Thomas. Ekki er mikið landslag undirliggjandi í vellinum sjálfum, hann liggur á flatlendi en Thomas hafði þeim mun frjálsari hendur. Þarna eru ýmsar vatnshindranir og ekki vænlegt að spila beint af augum. Hér þarf úthugsað leikskipulag ef menn ætla ekki að lenda í vandræðum og jafnvel djörfung á stundum – ef menn vilja skora. Sennilegt má teljast að hverri kylfu í pokanum verði sveiflað.

Fyrsta holan gefur tóninn. Par fimm hola, um 500 metra löng og þeir högglengri verða strax að gera upp við sig hvort þeir ætli að reyna að fljúga kúlunni yfir glompu hægra megin eða reyna að slá öruggt til vinstri. Annað höggið þarf að vera nákvæmt til að undirbúa innáhögg því flötin er vel vernduð af stórri glompu vinstra megin frá golfaranum séð. Og þannig má áfram telja. 

Sjöunda holan er til að mynda spennandi, reyndar fremur ógnvekjandi ef menn eru þannig innstilltir, flötin úti á eyju og um 170 metra löng. Flötin er fyrir framan klúbbhúsið og því dugir ekki að vera feiminn. 

Eins og áður sagði tengist völlurinn lúxus-orlofshúsabyggð við ströndina. Klúbbhúsið er í stíl við þetta; á tveimur hæðum og ríkulega búið: Verðlaunaður veitingastaður, verslun, búningsherbergi, gufubað, sturtur og sjónvarpsherbergi. Gestir þurfa ekki að láta sér leiðast á Roda golf.

Vistabella Golf

Vista bella er talinn einn best hannaði völlur Spánar enda er það enginn annar en Manuel Pinero, sá heimsþekkti golfari, sem teiknaði völlinn. Völlurinn fær bestu meðmæli þeirra sem hann hafa spilað. Vista bella var tekin í notkun árið 2010, sem gerir hann einn af nýrri völlum Alicante-svæðisins, hann er par 73, 5.844 metrar af gulum teig og 4.991 metrar af rauðum.

Við hönnun vallarins er mikið lagt uppúr því að völlurinn sé í góðri sátt við umhverfi sitt. Vista bella er staðsett í einstöku landslagi og eru jurtir, tré og runnar sömu tegundar og einkenna nærumhverfið, gróðursett skipulega á þeim 34 hektarar sem lagðir eru undir völlinn. Þeirra á meðal barrtré sem eru einmitt merki golfklúbbs staðarins.

Glompur eru vandlega staðsettar, þarna eru vatnshindranir og eins gott fyrir golfara að leggja leik sinn vandlega upp fremur en láta kylfu ráða kasti. 

Við Vista bella, eins og flesta golfvelli í þessari golfparadís sem Alicante-svæðið er, má finna ljómandi fínan veitingastað þar sem panta má sér veitingar og njóta þeirra með einstakt útsýni fyrir augum yfir þennan völl, sem svo vel er látið af. Þar má að auki finna æfingasvæði og púttvöll, golfbúð og ef menn eru í miklum ham og ekki á hraðferð má meira að segja bregða sér í keilu þarna við völlinn.