Bíllinn

Bíllinn

Að mörgu þarf að hyggja þegar kemur að bílum og bílaviðskiptum á Spáni. Hvernig er bílamarkaðurinn á Spáni? Get ég keypt bíl á Spáni án þess að vera búsettur þar ? Hvernig er að leigja bílaleigubíl ? Hvernig er að flytja bíl inn til Spánar ? Hvernig eru bílatryggingarna ? Þessar spurningar og margar fleiri vakna hjá mörgum og verður leitast við að svara þeim hér eftir fremsta megni og ef þið þarfnist aðstoðar þá erum við til astoðar - [email protected] 

 

 

Bílamarkaðurinn:
Bílamarkaðurinn á Costa Blanca svæðinu er nokkuð virkur og víða má finna bílasala sem bjóða bæði nýja og notaðað bíla til sölu en á Spáni sem og annars staðar hefur þó orðið hrun í sölu bíla miðað við áður.  Bæði má finna bílaumboð með helstu vörumerkin í bílaheiminum sem eru þá einnig starfrækt með bílaverkstæði og notaða bílasölu svo og má finna sjálfstæða bílasala sem selja einungis notaða bíla. Fullt tilefni er að varast gylliboð sumra bílasala um ábyrgðartíma, lágt verð og þjónustu en gott er að skoða sig vel um, gera samanburð og síðast en ekki síst leita meðmæla hjá öðrum sem eru búsettir á svæðinu. Þegar bílamarkaðurinn er skoðaður finnst sumum það furðu sæta að oft er lítill verðmunur á nýjum bílum og sambærilegra nýlegra notaðra bíla.  Þetta er alþekkt á Spáni en ástæðuna má rekja til þess að afföll af bílverði nýrra bíla er mjög lítið þar sem gott veðurfar og árferði er ekki að valda mikilli verðrýrnun. Verðfall er  meira á bílum í norðanveðri evrópu og því er nokkuð um það að bílakaupendur á Spáni leggi á sig ferðalag til landa eins og Þýskalands, Belgíu og Hollands þar sem verð sambærilegra bíla er lægra. Sem dæmi má nefna að Íslendingur búsettur á Spáni keypti sér 2ja ára BMW bifreið í Þýskalandi og flutti hana inn til Spánar. Viðkomandi þurfti að greiða 12% skráningargjald (registration tax) við innflutninginn en þrátt fyrir það var heildarsparnaður hans um 25% miðað við verð sambærilegs bíls á Costa Blanca svæðinu. En þessari leið fylgir sá mikli ókostur að það getur tekið óratíma að klára öll pappírsmál varðandi innflutninginn. Reyndir “Gestores” segja að það geti tekið nokkrar vikur og upp í mánuði að klára þetta innflutningsferli. Því miður er þetta einkennandi fyrir spænska stjórnsýslu.

Bílakaup:
Eins og kemur fram hér að ofan getur hreinlega verið einfaldara að kaupa bíl á spænskum númerum heldur en að vera eltast við það að kaupa sambærilegan bíl í norður-evrópu vegna lægra verðlags.  Íslendingur á Costa Blanca svæðinu getur keypt bíl á spænskum númerum ef hann uppfyllir eitthvað af eftirfarandi skilyrðum:

- hefur formlegt dvalarleyfi eða
- hefur afsal fyrir fasteign á Spáni (verður að vera  heimilisbústaður en ekki verslunarhúsnæði) eða
- hefur skáð sig til búsetu á sveitafélagsskrifstofu eða
- hefur formlega húsaleigusamning sem er a.m.k. 1 ár að lengd.
- hefur spænska kennitölu (NIE númer)

Ef  bílakaupandinn er ekki með dvalarleyfi þá reynist jafnframt nauðsynlegt að leggja fram staðfest afrit af spænskri þýðingu á ökuskírteininu. Umferðarlögreglan spænska gerir kröfu um að þeir sem ekki eru venjulegir ferðamenn á Spáni og ferðast mikið um á vegum landsins á bílum með spænskum númerum hafi slíkt afrit svo þeir skilji það sem stendur á ökustírteininu. Ella getur ökumaðurinn verið sektaður um 300 evrur.
 
Frágangur bílaviðskiptana fer yfirleitt fram í gegnum bílasöluna eða skrifstofu “Gestoras” en einnig geta aðilar sjálfir gengið frá viðskiptunum sín á milli hjá “Jefatura de Trafico” (umferðarstofu) en fyrir óreynda er það ekki ráðlagt.

Ýmiss gögn þurfa að liggja frammi við þennan skjalafrágang eins og :

- umsóknin um eigendaskiptin
- skjal er sýnir eigendasöguna (circulation permit)
- passamynd og dvalarleyfi eða annað það sem sýnir búsetu eða eignarrétt á Spáni.
- kvittun fyrir greiðslu bílaskattsins sem er álagður einu sinni á ári af hálfu hvers sveitarfélags þar sem ökutækið er skráð. 
- kvittun fyrir greiðslu á eigandaskiptaskattinum en 4% skattur er greiddur af söluverð notaðra bíla til viðkomandi skattstofu.
- ITV ástandsskýrsla um bílinn ásamt ljósmynd.

Eins og hér sést er þetta mikið pappírsflóð og þó nokkur gjaldtaka og það margborgar sig að fá liðsinni reyndra aðila og býður costablanca m.a. upp á þjónustu sem þessa. Vinsamlegast sendið inn fyrirspurn á [email protected]

Bílaleiga:
Á Costa Blanca svæðinu eru starfandi margar bílaleigur og er nokkuð ljóst að samkeppnin er mikil. Því er um að gera að leita fyrir sér af góðum bílum á góðu verði en verðin geta verið mismunandi eftir fyrirtækjum og ýmiss tilboð í gangi. Þegar gylliboðin eru skoðuð er um að gera að skoða vel allan annan kostnað eins og tryggingar, bensínáfyllingarkostnað, kostnað við aukaökumann, þrif ofl. Nauðsynlegt að athuga hvort allt er innifalið. Einnig eru verðin mismunandi eftir því hvort um er að ræða leigu á bíl á háannatíma “high season” eða að vetri til “low season” þar sem verðin eru mjög lág og minni útleiga. Margar bílaleigur á svæðinu eru með þjónustu á flugvöllunum en unnt er að fá bílinn afhentan þar við komu og skila honum af sér á sama stað. Mörgum reynist vel að versla við þær bílaleigur sem góð reynsla er af og hafa fengið góð meðmæli t.d. frá öðrum Íslendingum sem hafa átt viðskipti við ákveðnar bílaleigur og hafa góða reynslu af lipurð og þjónustu. Þegar bílaleigubíll er leigður þarf alltaf að gefa upp vegabréfsnúmer, ökuskírteinisnúmer og einnig hver verður aukabílstjóri ef einhver verður á leigutímanum. Það er mjög mikilvægt að bílaleigusamningurinn sé ávallt hafður með í för þar sem lögreglan getur sektað ökumann bílaleigubíls um allt að 1.500 evrur ef bílaleigusamningurinn er ekki til staðar. Góð regla að hafa bílaleigusamninginn alltaf í hanskahólfinu. Margar bílaleigur hafa einnig aldurstakmark á leigutaka og er oftast miðað við 21 árs aldur leigutaka.

Bílatryggingar:
Ef Íslendingur flytur sinn eigin bíl frá Íslandi til Spánar er nauðsynlegt eins og áður segir að viðkomandi tryggingarfélag á Íslandi hafi gefið út svokallað “græna kort” fyrir bílinn en það er staðfesting frá tryggingarfélaginu að bifreiðin sé enn vátryggð hjá því þó bifreiðin hafi farið út fyrir landamærin og inn í annað land innan evrópusambandsins.

Ef Íslendingur kaupir bíl á spænskum númerum þá hefur annað hvort bílasalinn milligöngu um að að útvega tryggingar á bílinn eða ef bíllinn er keyptur á afborgunum þá verður kaupandinn að gangast undir kaskótryggingu hjá tilteknu tryggingarfélagi sem kaupandi hefur ekkert val um. Slík kaskótrygging á litlum smábíl er dýr. En hins vegar getur venjuleg bifreiðatrygging verið á sama bíl um 200-300 evrur á ári miðað við tjónalausan feril og 50% bónus hjá Trygginarfélaginu. Á Spáni er sá háttur á að iðgjöld trygginga eru hærri eftir því sem ökumaður bifreiðarinnar er yngri. Einnig fara iðgjöldin hækkandi samfara vélastærð bifreiðarinnar. 

Í stuttu máli má segja að allar bifreiðatryggingar á Spáni séu álíka þeim sem eru í boði hjá íslenskum tryggingarfélögum nema hvað þjónustustigið verður að teljast hærra hjá felstum spænskum tryggingarfélögum. Munurinn helst sá að tryggingarfélagið á Spáni er ávalt með opið fyrir neyðarnúmer allan sólarhringinn og ef bifreiðin er biluð eða ókufær kallar tryggingarfélagið á dráttarbíl strax og flytur bílinn á það verkstæði sem eigandinn vísar til. Einnig sér tryggingarfélagið um að koma eigandanum heim til sín ef bifreiðin hefur bilað fjarri dvalarstað eiganda. Það getur verið nóg að hringja í neyðarnúmer tryggingarfélagsins ef bifreiðin er annað hvort rafmagnslaus eða með sprunginn hjólbarða. 

Að flytja bíl til Spánar :
Í tengslum við búferlaflutning til Spánar velta margir því fyrir sér hvort það sé hagstætt eða óhagstætt að flytja heimilisbílinn með sér til Spánar. Eins og að framan greinir getur verð á notuðum bílum verið nokkuð hátt á Spáni en þó aldrei eins hátt og á Íslandi þannig að flutningur með bílinn til Spánar getur reynst norður evrópubúum á meginlandinu mun betri kostur en Íslendingum. Þó er þetta allt saman mikið matsatriði í hverju og einu tilfelli fyrir Íslendina. Útflutningur heimilisbílsins getur reynst góður kostur þegar uppi er staðið en þó er mikilvægt að gera sér grein fyrir öllum áföllnum kostnaði við það ferli.

Ef íslenskur ríkisborgari, sem er að flytjast til Costa Blanca svæðisins og vill setjast þar að, ákveður að taka fjölskyldubílinn með sér þá er hann undanþeginn öllum sköttum og gjöldum á Spáni ef hann hefur átt bílinn í sínu heimalandi í að minnsta kosti 6 mánuði. Þessir skattar og opinber gjöld vegna innflutning á bifreiðum til Spánar er annars þessi:
- 16% virðisaukskattur (IVA)
- 12% (eða stundum 7% ) skráningarskattur (regisstration tax)
- 10% innflutningsskattur sem leggst á bifreiðar fluttar inn frá löndum utan Evrópu.

Þó svo að ekki þurfi að greiða neina skatta þarf ætíð að greiða fyrir ýmiss umsýslu- og stimpilkostnað sem getur verið hátt í 700 evrur.
Það er einnig algjört skilyrði fyrir þessari undanþágu á greiðslu skatta að innflytjandinn hafi staðfestingu frá heimalandi sínu um að hann hafi ekki lengur búsetu þar og að auki yfirlýsingu um að sótt hafi verið um búsetuskráningu á Spáni. Það reynist lang hagkvæmast að sækja um þessa skattaundanþágu um leið og lögð er inn umsókn um dvalarleyfið því það getur verið bölvanlegt að fást við spænska stjórnsýslu og það jafnvel í  marga mánuði ef þessir pappíra fylgjast ekki með.  Hér er lang farsælast að láta fagmennina aðstoða sig. 

Hvað  sem líður þessum skattaundanþágum þá er alltaf leyfilegt að flytja bílinn inn til Spánar á íslenskum númerum en bíllinn má vera á spænskum vegum án þess að vera skráður á spænsk númer. Þetta þýðir að bíllinn má vera á spænskum vegum svo framarlega sem hann fari í sína árlegu skoðun hjá ITV skoðunarfyrirtækjunum (sama og Frumherji á Íslandi) Þegar skoðunarpappírarnir liggja fyrir á Spáni eru þeir sendir til Umferðarstofu á Íslandi (Samgöngustofu - www.us.is) Í framhaldinu gefur Umferðarstofa út nýjan skoðunarmiða sem eigandinn getur þá þá límt á númeraplötu bifreiðarinnar á Spáni. Þessu tengt er einnig unnt að sækja um það til Ríkisskattstjóra að ekki séu greidd bifreiðagjöld af bifreiðinni á Íslandi á meðan bifreiðin er stödd á Spáni. Sýna þarf Ríkisskattstjóra gögn þess efnis að bifreiðin sé stödd á Spáni. í

Að lokum verða hér helstu kostnaðarliðir dregnir saman til glöggvunar ef flytja á venjulegan japanskan heimilisbíl til Spánar frá Íslandi og skrá á spænsk númer:

- Sjóflutningur til Rotterdam um kr. 120.000
- Keyrsla á bílnum niður til Spánar – bensín og vegatolla um kr. 45.000
- Hótelgisting á leiðinni til Spánar um kr. 30.000
- Pappírs- og stimpilkostnaður hjá spænskum stjórnvöldum  um kr. 80.000
- Engir skattar greiddir vegna undanþáguheimildar sem íbúi evrópusambandsins.
- Greiðsla fyrir aðstoð og ráðgjöf frá Gestoras eða lögfræðingum um kr. 60.000

Þessi kostnaður sem týndur er hér til nemur því hátt í rúmar kr. 350.000,- íslenskar fyrir venjulega lítinn japanskan heimilisbíl sem er metinn um kr. 1,0 millj, á íslenskum bílasölumarkaði. Það reynist því hér mun hagkvæmara ef litið er á málið heildstætt að selja bílinn frekar á sölu á Íslandi á niðursetti verði eða þess vegna um kr. 600.000. – heldur en að flytja hann út.  Það er mun hagkvæmara að geta verslað sér þá sambærilegan bíl á kringum þetta sama verð um kr 600.000 á Spáni og verslað sér þannig bíl á spænskum númerum án frekari vangaveltna og vandræða í spænskri stjórnsýslu. Ef hins vegar spurningi er að flytja út mun dýrari bíl frá Íslandi getur aftur á móti verið mun hagkvæmara að flytja bílinn út þar sem endursöluverðið á Spáni getur verið svipað og á Íslandi á svona dýrum bíl.
Einnig hafa margir Íslendingar sem hafa flust til Spánar valið þá leið að flytja bílinn með Norrænu (Smyril Line) og um leið slegið tvær flugur í einu höggi með því að spara sér flugfargjaldið og notið þess að keyra í gegnum Evrópu til Spánar.

Vinsamlegast sendið okkur fyrirspurnir á [email protected] ef þið óskið eftir frekari upplýsingum eða við getum lagt ykkur frekara lið á einhvern hátt.