Menntakerfið

Það kemur kannski einhverjum á óvart þegar sagt er að skólakerfið á Spáni sé betra en það íslenska. Þetta eru stór orð en umsagnir margra  foreldra og nemanda sem hafa samanburðinn frá sínu heimalandi styðja þessa fullyrðingu. En auðvitað fylgja spænska menntakerfinu ýmsir kostir og gallar eins og gengur en hér að neðan verður reynt að gera góð skil á spænska menntakerfinu.

Almennt um spænska skóla: 

Skólaárið á Spáni hefst í september og lýkur í júní á ári hverju en einnig eru vetrarfrí um 10 dagar og jólafrí um 2 vikur þannig að skólaárið er í raun mjög svipað og á Íslandi. Þó er skóladagurinn yfirleitt aðeins lengri á Spáni en hann er frá kl 09:00 til 16:30 á daginn en í hádeginu er þó tekið eins og hálfs klukkutíma matarhlé. Börnin fara þá heim eða eru áfram í skólanum og fá hádegismat. Sækja þarf um sérstaklega ef börnin eiga að vera í skólanum í siestu. 

Á Spáni eru engin skólagjöld en hins vegar þarf hver og einn nemandi að greiða fyrir allan efnis- og bókakostnað en hann er á bilinu 150-200 evrur á barn. Einnig þarf nemandi að greiða fyrir allar tómstundir eins og tónlistarnám, íþróttir ofl. En íþróttakostnaður er mun lærri á Spáni en á Íslandi.  Á Spáni eru einnig starfræktir margir einkaskólar bæði spænskir og alþjóðlegir en þar eru þó skólagjöld og geta þau numið frá 200 - 400 evrum á mánuði. Sumir þessara einkaskóla á Costa Blanca svæðinu eru breskir og eru tvítyngdir "billingual" þar sem námið er bæði á spænsku og ensku. Þess má geta til gamans að nýlega var gerð könnun sem leiddi í ljós að 80% útlendinga á Costa Blanca svæðinu valdi að senda börn sín í spænska skóla. Reynsla hefur líka sýnt það að börnum og sérstaklega yngri börnunum hefur yfirleitt gengið afskaplega vel að ná spænskunni og aðlagast spænsku skólalífi. 

Almennt er mál manna sem hafa kynnst spænskum skólum að agi og festa sé mikil í skólunum og að hver skóli ber virkilega hag hvers nemanda fyrir brjósti. Nýjum nemendum af erlendu bergi brotnu er veittur góður stuðningur og í flestum skólum fá nýir nemendur sem ekki kunna stakt orð í spænsku, sérkennslu og aðstoð þegar fyrstu skrefin eru stigin í nýjum skóla. Að lokum má hér geta að í sumum skólum á Spáni eru skólabúningar. 

Skráning í spænska skóla: 
Öll börn á Spáni hvort sem þau eru innfædd eða útlensk fá inngöngu í skóla og hefur það aldrei verið neitt vandamál að koma börnum í spænska skóla. Hverju og einu bæjarfélagi er lögð sú skylda á herðar að útvega hverju og einu barni á skólaaldri skólaplássi. Ekki er hægt að velja í hvaða skóla barnið fer því það er hér eins og á Íslandi að barnið fer í þann skóla sem næstur er heimilinu. Því þurfa foreldrar að velja búsetu eftir því hvar þau vilja að barnið gangi í skóla, annars eru flestir skólarnir ágætir og kannski erfitt að velja hvaða skóli er bestur nema að þekkja það af eigin raun.

Umsóknarferlið er eftirfarandi: 
Byrja á að skrá heimilisfang í næsta ráðhúsi og hafa meðferðis passa allra þeirra sem þar eiga að búa ásamt afsali að fasteigninni eða húsaleigusamningi. Það þarf sem sagt að sýna haldbær gögn er staðfesta heimilisaðsetrið. Einnig þarf að fara með börnin til læknis á Spáni og fá vottorð frá honum sem staðfestir að börnn séu heilbrigð. Hér er mikilvægt að foreldrar hafi meðferðis heilsufarsbækur barnanna frá Íslandi. Síðan þarf að leggja þessi vottorð fram ásamt fæðingarvottorðum barnanna. Öll þessi vottorð fyrir utan spænska læknisvottorðið er unnt að fá á ensku hjá íslenskum stjórnvöldum.
Börnin eru síðan skráð í þann skóla sem varð fyrir valinu og í flestum tilvikum ef ekki öllum þarf að leggja fram fyrir skólann vottorð á ensku um námsframmistöðu þeirra í íslenskum skóla og umsagnir kennara þeirra á Íslandi. Að þessu loknu eru börnin skráð og geta hafið sína spænsku skólagöngu. 

Uppbygging á spænsku skólakerfi.

"Smábarnanám" (Educacion Infantil)  - frá 3ja til 6 ára aldurs - ekki skylda
Þetta námsstig á Spáni er ekki skylda en hér er skólakerfið að bjóða það að hefjast handa við að móta menntun ungra barna á þessum aldri og efla þau þar sem reynir á hæfni hvers og eins.  Á þessu skólastigi eru umhverfisgildi, félagsleg gildi og persónugildin höfð ofarlega að leiðarljósi í allri kennslu. Börnum er m.a. kennt hér stafrófið, lestur og skrift. Þetta er ekki mikil og ströng menntun heldur meira kynning og undirbúningur í takt við leik og skemmtun. 

Grunnskólanám (Educacion Primaria) - frá 6 - 12 ára aldurs - skylda 
Svipar til grunnskóla á Íslandi nema hvað börnin koma yfirleitt betur undibúin til náms eftir að hafa verið 3 ár á fyrsta námsstiginu. Mörg börn á 6 ára aldri kunna orðið að lesa og skrifa tölur upp í 20 en þess má geta að helstu fögin á þessu námsstigi eru reikningur, spænska, almenn þekking og vísindi, landafræði, saga, líffræði, leikfimi, listir og annað tungumál t.d. enska eða franska. Trúarbragðanám er ekki skylda en fyrir þá sem vilja er kaþólska kennd. Þeir sem ekki fara í þessar valgreinar stunda heimanámið sitt á meðan í skólanum. 
Í gegnum námsstigin er það rauður þráður að nemandi verður að geta staðið skil á námsefninu upp að ákveðinni lágmarkskröfu ella þarf nemandinn að sitja skólaárið aftur að ári með næsta árgangi fyrir neðan. Þessi áfangapróf ef svo má kalla eru þó ekki á hverju ári heldur annað hvert ár þar sem þessi 6 ár eru skipt upp í þrjú 2ja ára tímabil. 
Skólinn er yfirleitt nokkuð opinn og hafa foreldrar alltaf möguleika á fundi einu sinni í viku með umsjónarkennara barnsins þar sem farið er yfir námið og hvernig náminu framvindur. Frá fyrsta degi er nokkur heimavinna. 

Gagnfræðiskóli (Educacion Secundaria) - frá 12 - 16 ára aldurs - skylda
Hér er í rauninni beint framhald grunnskólans þar sem mikil og þétt kennsla er einkennandi fyrir allt skólaárið og nokkuð mikið heimanám. Hér er krafist sjálfsaga frá nemanda og töluvert er um skyndipróf í flestum fögum. Þær kröfur eru gerðar til hvers og eins nemanda að hann nái ákveðinni lágmarkseinkunn í stærðfræði og spænsku ella þarf hann að endutaka námsárið að ári liðnu. Að loknu námi hér fá nemendur prófskírteini sem hleypir þeim áfram upp í framhaldsskólann fyrir þann sem það velur. 

Framhaldsskóli  (Bachillerato) - frá 16 - 18 ára aldurs - ekki skylda
Á þessu skólastigi er mikið um akademísk námsfög og hér getur nemandi valið um það að fara í margs konar þjálfun á nokkrum brautum. Fjórar brautir eru í boði: Listir, Hugvísindi, Eðlisfræði og Tækninám. En að lokum er boðið upp á sérstaka braut þar sem er þjálfun í skrifstofumennsku, bifvélavirkjun, framleiðslu (þjónn) og hárgreiðslu.  Eftir þetta 2ja ára nám eru lokapróf og ákveðið námsmat eða kennaraeinkunn gefin út á hvern nemanda. 

Háskóli  (Universidad) - frá 18 ára aldri - ekki skylda 
Eins og sést hér þá fara spænskir nemendur um tveimur árum fyrr í háskóla en til þekkist hér á Íslandi en enginn fer í Háskóla fyrr en nemandi hefur staðist inntökupróf. Mikil fjölbreytni af faggreinum eru í boði í spænskum Háskólum eða allt frá hinum venjubundnu greinum sem til þekkjast hér á Íslandi og yfir í faggreinar sem ekki hafa verið kenndar í íslenskum háskólum. Ótækt er að rekja það hér hvaða námsgreinar eru í boði en bent er á þá mörgu háskóla sem staðsettir eru á Costa Blanca svæðinu.

Vinsamlegast sendið okkur fyrirspurn á [email protected] ef þið viljið fá frekari upplýsingar um spænska skólakerfið og einnig getum við lagt ykkur lið ef svo ber undir.