Lífið á Spáni

Það sem einkennir lífið á Spáni er gott veðurfar, rólegheit, yfirvegun og fjölskylduvænt umhverfi. Það er óhætt að fullyrða að spánverjar láta ekki stressa sig upp heldur láta þeir allt hafa sinn tíma og ytra áreiti kemur þeim ekki úr jafnvægi. Það eru orð að sönnu þegar sagt er að blóðið renni hægt í spánverjunum þó þeir geti verið blóðheitir.   

Flestir þeir sem setjast að á Spáni og koma frá norðlægari slóðum þurfa að hafa sig alla við og gíra sig verulega niður. Sumir telja það mikinn ókost við Spán að þurfa að bíða t.d. eftir símatengingu í 3-6 vikur eða afgreiðslu umsókna í spænsku stjórnkerfi í 6 mánuði.. Þessu verður að venjast. Evrópubúum finnst Spánn vera oft 10 - 15 árum á eftir á ýmsum sviðum en þessu öllu saman fylgja að sjálfsögðu kostir sérstaklega fyrir þá sem vilja breyta um lífstíl og lifa þægilegu og rólegu lífi. Þó er þetta að sjálfsögðu ekki algilt og sérstaklega ekki á Costa Blanca svæðinu þar sem þar búa einstaklingar frá allt að 80 þjóðlöndum og umhverfi allt orðið nokkuð alþjóðlegt á ýmsum svæðum. Þessi þróun hefur leitt til þess að ýmiss alþjóðleg stórfyrirtæki hafa séð hag sinn í því að skjóta niður rótum á svæðinu og opnað útibú eða skrifstofu. Sem dæmi má nefna á svæðinu finnast ýmsar alþjóðlegar matvöruverslunarkeðjur, stórverslunin IKEA, alþjóðleg tryggingafélög og bankar og þannig mætti lengi telja. 

Veðurfarið á Spáni er ætíð með besta móti en það eru orð að sönnu að sólin skín 300 daga ársins. Þó er það svo að þó sólin sé hátt á lofti og hitinn mikill þá er hún ekki endilega óþægilega sterk þar sem mistur liggur oft yfir öllu. Eitt er allavega víst að það veðurfar sem íslendingar upplifa í sumarfríum sínum á Spáni þ.e.a.s. hátt í 30 stiga hiti og skínandi björt sólin er ekki það veðurfar sem er á svæðinu allt árið um kring. Hitatölur sýna að hitinn er hvað mestur yfir hásumarið eða frá 23 - 30 gráður en á haustin og vorin liggur hann hann í kringum 18 - 24 gráður. Yfir háveturinn eða frá og með fyrir  jól og áramót og fram til mars apríl getur hitinn legið frá 12 - 20 gráður en það kallast skítakuldi á Spáni þegar hitinn yfir hábjartan daginn dettur niður í 10 - 14 gráður. Þetta gerist þó ekki oft. Einnig geta hitasveiflur verið nokkuð miklar á sama sólarhringnum en ekki er óalgengt yfir sumartímann að hitinn fari úr 24 - 26 gráðum yfir daginn niður í 17 - 19 gráður seint á kvöldin. Það spilar einnig stóran þátt í öllum þessum vangaveltum um hitatölur að Costa Blanca svæðið liggur meðfram opnu Miðjarðarhafinu og því blæs oft ágætis gola af hafi sem virkar sem ágætis kælikerfi á loftslagið og því er sjaldnast að mikill raki myndist. Það er frekar þegar komið er innar inn í landið að þar myndist miklar hitastillur með hita og raka. Munurinn á þessu getur oft verið óþægilega mikill þegar ferðast er á milli staða á Costa Blanca svæðinu og því ávallt gott að hafa vatnsflösku við hendina. 

Annars staðar hér á síðunni er vikið að helstu hefðum og siðum á Spáni t.d. þjórfé, siesta, nautat og og er áhugavert að skoða það efni í samhengi við lífið á Spáni. Einnig er áhugavert að skoða hér lítillega sögu Spánar og nokkrar staðreyndir um Spán. 

Vín- og matarmenning Spánar er stór þáttur í lífinu á Spáni svo og götumarkaðir og verslun. 

Skoðið annars allt annað það sem vekur áhuga ykkar á þessari heimasíðu en gott er að renna yfir flokkana hér til vinstri.