Heilbrigðis- og tryggingakerfið

Um 60% heilbrigðiskerfisins á Spáni er einkarekið og nauðsynlegt er að gera sér grein fyrir því að sem Íslendingur með evrópska sjúkratryggingarkortið hefurðu ekki endilega aðgang að öllum spítölum eða læknastofum Costa Blanca svæðisins. Hér verða týndir til nokkrir hlutir sem gott er að vita af og hafa að leiðarljósi þegar leita þarf eftir þjónustu í spænska heilbrigðiskerfinu:


Almennt um spænska heilbrigðiskerfið
Spænska heilbrigðiskerfið hefur undanfarin ár tekið stakkaskiptum. Kerfið er í dag til mikillar fyrirmyndar og hafa mörg ríki annars staðar í Evrópu horft aðdáunaraugum á þróunina á Spáni og reynt að feta í fótspor spánverja og reynt að læra af þeim. Heilbrigðiskerfið er orðið það gott að verulega hefur dregið úr þörf fólks á að sækjast eftir sérstakri heilsufarstryggingu hjá sjálfstætt starfandi tryggingafélögum. Þess má geta að aðeins um 5% innfæddra eru með sérstaka heilsufarstryggingar og að barnadauði er mun lægri á Spáni en í Bandaríkjunum og Bretlandi. Því má með sanni segja að þeir íslendingar sem ferðast til Spánar og dveljast þar til lengri eða skemmri tíma þurfa ekki að óttast slælegt heilbrigðiskerfi ef á læknismeðferð þarf að halda. Aðgangsheimildin að spænska heilbrigðiskerfinu er Evrópska sjúkratryggingarkortið. Sjá nánar hér neðar.

Mikið hefur verið byggt upp af spítölum á Costa Blanca svæðinu á undanförnum misserum og því allur aðbúnaður víðast hvar til mikillar fyrirmyndar. Það er mál manna að biðtími eftir læknisaðtoð sé einnig ekki mikill þegar komið er inn á spítala. Á Costa Blanca svæðinu er einnig þó nokkuð um minni einka læknastofur þar sem starfa bæði innfæddir og erlendir læknar annars staðar frá Evrópu sem eru með spænskt lækningaleyfi. Þessar stofur margar hverjar hafa því á að skipa færum enskumælandi svo og skandinavískum læknum. Þessar stofur má finna víða á ferðamannasvæðum og það góða við þessa blöndun á einka- og opinbera geiranum er að þessir aðilar vinna ekki gegn hvor öðrum eins og ætla mætti heldur spila kerfin tvö mjög vel saman. En auðvitað eru svartir sauðir víða og hefur það reynst ágætt fyrir nýflutta einstaklinga til svæðisins að spyrjast fyrir um lækna og fá jafnvel meðmæli frá öðrum á svæðinu. Að framansögðu má ætla að allt sé í himna lagi með spænska heilbrigðiskerfið. En svo er ekki. Þegar komið er innar í landið hefur ekki verið eins mikil uppbygging á aðgengilegri læknisaðstoð og er þvi ekki mælt með því að einstaklingar, sem þurfa á stöðugri læknisaðstoð að halda, flytji á þessi svæði.  Einnig er ekki mikið um elliheimili, heilsustofnanir og endurhæfingarmiðstöðvar á Costa Blanca svæðinu. Þó hefur þetta verið að breytast nokkuð að undanförnu en evrópsk rekstrar- og fasteignafélög hafa verið að reisa mjög vegleg og fullkomin eldri manna heimili þar sem allt er til alls. Ástæðuna fyrir þessum skorti á elliheimilum og heilsustofnunum á Spáni má helst rekja til þess að spánverjar eru með heilsuhraustustu þjóðum heims en meðalaldur spænskra karlmanna er 74 ár en spænskra kvenna 80 ár. Að auki er það í þjóðarvitund Spánverja að stórfjölskyldan taki að sér að sjá um foreldra þegar síga tekur á seinni hlutann. Að auki er fróðlegt frá því að segja að fjöldi hjartaáfalla hjá spánverjum er með allra lægsta móti á heimsvísu og þakka menn því hæfilegri rauðvínsdrykkju og stresslausu líferni. 
Einnig verður að minnast á það að í spænsku kerfi er svokallað tilvísunarkerfi eins og þekkist á Íslandi en það getur verið löng bið eftir sérfræðingi ef erindið er ekki neyðartilvik.

Neyðarástand: 
Þegar neyðartilvik koma upp hjá þér eða fjölskyldunni á Costa Blanca svæðinu og kalla þarf á sjúkrabíl skal ætíð hringja á 112 sem er neyðarnúmer þeirra á Spáni eins og hér á Íslandi. Þegar hringt er á 112 sendir neyðarþjónustan annað hvort sjúkrabíl frá næsta spítala með lækni um borð eða frá sjálfstætt starfandi sjúkraflutningafyrirtækjum sem reka sjúkrabílana. En allir sjúkrabílarnir eru frá Rauða Krossinum eins og á Íslandi. 
Þó skal ætíð hafa það í huga að þegar bráðatilvik koma upp og hringt er á sjúkrabíl þá mun sjúklingurinn alltaf fá skjóta læknisaðstoð á næsta spítala án þess að verið sé að spá í hvernig tryggingarmálum sé háttað eða á hvaða spítala eigi að fara. Samkvæmt spænskum lögum ber öllum spítölum og læknastofum hvort sem þau eru opinber eða í einkaeigu að meðhöndla sjúklinga sem koma inn í neyðartilvikum. Það er hins vegar alltaf hlutverk vakthafandi læknis eða hjúkrunarfræðings að meta hvert og eitt tilfelli og ákveða hvort um neyðarástand sé að ræða eður ei.

Apótekin - Local farmacia
Apótek á Spáni þekkjast vel á grænum krossi sem hangir úti í glugga eða utan á apótekinu. 
Ólíkt því sem við þekkjum á Íslandi er unnt að ganga inn af götunni inn í næsta apótek til þess að fá alls konar lyf án lyfseðils sem eru aftur á móti lyfseðilsskyld á Íslandi. Á Spáni fer því fólk frekar til lyfsalans vegna minni háttar veikinda eða áverka en ekki beint til læknis eins og tíðkast í íslenska heilbrigðiskerfinu. Í spænskum apótekum er líka oftar en ekki mjög vel menntað fólk og læknar sem geta gefið góð ráð og oftar en ekki senda þeir viðskiptavininn beint til læknis ef þeir telja hann vera það veikan. Þetta samspil gengur vel upp. Lyf í spænskum apótekum eru nokkuð ódýrari en þekkist í öðrum evrópulöndum. Sum þekkt alþjóðleg lyf geta verið mörg hundruð prósent ódýrari á Spáni og er þetta vegna niðurgreiðslustefnu spænskra stjónvalda á lyfjum. Þess má að lokum geta að apótekin skipta því á milli sín að hafa opið allan sólarhringinn en þegar komið er að apóteki eftir lokun er listi úti í glugga þar sem tilgreint er hvaða apótek eru með kvöld- og næturvakt.

Tann- og augnalækningar alfarið innan einkageirans. 
Þess má geta að allar tannlækningar og tannréttingar á Spáni eru unnar á vegum einkageirans og kemur hið opnbera ekkert þar að. Sjúklingar geta því ekki sóst til almenna tryggingakerfisins um endurgreiðslu að hluta eða öllu leyti á þeim tannlæknakostnaði sem til fellur eins og þekkist á Íslandi. Sömu sögu er að segja um auglækningar en á Spáni eru allir augnlæknar innan einkageirans. Hvað þessa tvo þætti varðar getur verið nauðsynlegt fyrir fjölskyldur að vera með heilsufarstryggingar (sérstaklega vegna fyrirhugaðra tannréttinga) sem ná til þessara tegund lækninga en tannlæknakostnaðurinn er þó verulega lægri á Spáni en á Íslandi.

 

Heilsufarstryggingar hjá sjálfstæðum vátryggingafélögum. 
Ólíkt því sem þekkist á Íslandi vegur einkageirinn í heilbrigðiskerfinu verulega þungt í veittri læknisaðstoð og er það svo að um 15% íbúa á Costa Blanca svæðinu hafa keypt sérstakar heilsufarstryggingar til að tryggja sig fyrir dýrri og nauðsynlegri spítalainnlögn á einkaspítala. Þó er það svo eins og segir hér að framan að það eru aðeins um 5% innfæddra spánverja sem fara þessa leið. Þessar heilsufarstryggingar þjóna þeim tilgangi að dekka allan kostnað sem hinn vátryggði verður fyrir þegar hann þarf að leggjast undir læknishendur hvort sem er á opinberum spítala eða einkaspítala. Kostirnir við þessar tryggingar eru að tryggingafélögin sem bjóða þessar tryggingar hafa ákveðið net spítala og lækna í sínum röðum sem alltaf er hægt að leita til og vátryggjandi hefur forgang og því þjónustan oftast mjög góð eftir því. Hins vegar eru þeir vankantar helstir að tryggingafélögin geta krafist þess að vátryggjandinn leiti aðeins til þeirra spítala og lækna sem tryggingafélögin hafa samið við. Hins vegar hafa flest tryggingarfélög þann háttinn á að endurgreiða 80% þess kostnaðar sem hlýst af  því að vátryggjandi hafi leitað sér aðstoðar hjá öðrum en þeim sem tryggingafélagið hefur samið við.  Tryggingafélögin Adeslas, Asias og Sanitas eru stærstir á þessum markaði á Spáni. Kostnaður við slíkar tryggingar er mismunandi og ræður þar aldur og kyn um. Sem raunhæft dæmi má nefna að alhliða trygging hjá Sanitas (tannlækningar innifaldar) eru um 70 evrur á mánuði fyrir 37 ára karlmann en um 130 evrur fyrir 36 ára konu.  

Evrópska sjúkratryggingarkortið 
Öllum Íslendingum á leið til Spánar hvort sem er til skemmri eða lengri dvalar er mikilvægt að sækja um evrópska sjúkratryggingarkortið hjá Tryggingastofnun Ríkisins áður en haldið er af landi brott. Kortið er í rauninni staðfesting á rétti handhafa þess til læknis- og lyfjameðferðar meðan á tímabundinni dvöl í landinu stendur. Handhafar evrópska sjúkratryggingakortsins eiga rétt á að fá heilbrigðisþjónustu innan Spánar gegn sama gjaldi og á Íslandi. Með heilbrigðisþjónustu er átt við aðstoð sem telst nauðsynleg af læknisfræðilegum ástæðum meðan á dvöl stendur, sé mið tekið af eðli aðstoðar og áætlaðri tímalengd dvalar.

Nefna má sem dæmi einstakling sem ætlar að dvelja í EES-ríki í tvær vikur en lendir í slysi og fótbrotnar. Hann ætti rétt á að búið yrði um brotið en hann ætti ekki rétt á endurhæfingu þar sem hún getur beðið þar til hann fer heim án þess að það skaði hann. Þá má einnig nefna sem dæmi ferðamann sem veikist og þarf á lyfjum að halda. Hann á rétt á læknisaðstoð og nauðsynlegum lyfjum. Það þarf hins vegar að taka tillit til áætlaðrar lengdar dvalar í viðkomandi landi þegar metið er hversu stórum skammti af lyfjum ber að ávísa.

Flestar meðferðir hjá tannlæknum, að undanskilinni bráðahjálp, eru þess eðlis að þær geta beðið þar til sjúklingur snýr heim. Athygli er vakin á því að sjúkdómur þarf ekki að koma upp meðan á dvöl erlendis stendur. En sjúklingur með langvinnan sjúkdóm sem dvelst 
tímabundið á Spáni, og þarfnast læknisaðstoðar á þeim tíma, á rétt á aðstoð gegn sama gjaldi og hann myndi greiða á Íslandi.

Ef einstaklingur, án sjúkratryggingar, sem fellur ekki undir þessar reglur óskar samt sem áður eftir lænisaðstoð á Spáni (er ekki með sjúkratryggingarkort) gagngert til að fá læknisaðstoð, þá verður hann að greiða fyrir þjónustuna að fullu sjálfur. Hann gæti síðan óskað eftir endurgreiðslu á Íslandi og það er þá Tryggingastofnun sem tekur ákvörðun um hvort endurgreiða beri kostnaðinn.

Ríkisborgarar EES þurfa að framvísa evrópsku sjúkratryggingaskírteini ásamt vegabréfi. 

Íslendingar með lögheimili á Spáni eru sjúkratryggðir þar eins og innfæddir ef þeir hafa sóst eftir þarlendu sjúkratrygginarkorti en íslenska sjúkratryggingarkortið gildir aðeins tímabundið eða á meðan tímabundinni dvöl á Spáni stendur.  

Það er mjög mikilvægt fyrir alla þá sem eru að flytjast búferlum til Spánar að sækja um sjúkratryggingarkort fyrir alla fjölskylduna hjá Tryggingastofnun Ríkisins áður en haldið er af landi brott.  En íslenska kortið fellur annað hvort úr gildi um leið og lögheimilið flyst frá Íslandi eða þegar 6 mánuðir eru liðnir af dvölinni á Spáni en á þeim tímapunkti er Íslendingurinn ekki lengur ferðamaður á Spáni og verður að yfirgefa landið eða sækja um dvalarleyfi eða “Resident permit”. Á þeim tímapunkti verður að sækja um spænskt sjúkratryggingarkort sem veitir sambærileg réttindi og það íslenska en það er spænska ríkið sem greiðir núna en ekki það íslenska. Enda er það svo að rétthafinn greiðir núna sína skatta og skyldur í sínu búsetulandi Spáni. Sjá nánar um sjúkratryggingarkortið á heimasíðu Trygginarstofnunar Ríkisins

Sjúkratryggingarkortið veitir aðeins handhafa þess rétt til nauðsynlegrar læknisþjónustu hjá þeim spítölum og læknastofum sem hafa um það samið við spænsk stjórnvöld. Nauðsynlegt er að verða sér úti um lista hjá t.d. Tryggingastofnun Ríksins eða næsta útibúi á Spáni um þessa spítala og læknastofur sem hafa samið við spænska ríkið. Einnig er unnt að tryggja sig enn betur og hafa sjúkra- og slysatryggingu hjá sjálfstæðu tryggingarfélagi sem greiðir fyrir alla nauðsynlega læknismeðferð á Spáni sbr. hér að ofan. 

Vinsamlegast sendið okkur fyrirspurn á [email protected] ef við getum lagt ykkur lið á einhvern hátt eða svarað frekari fyrirspurnum.