Föst búseta

Föst búseta - Dvalarleyfi - NIE númer
 

Útlendingi á Spáni er heimilt að dvelja í landinu í allt að 6 mánuði en eftir þann tíma verður viðkomandi að yfirgefa landið eða sækja um dvalarleyfi. Einnig verður sá sem vill fjárfesta í fasteign, bifreið eða opna bankareikng hafa spænska kennitölu eða NIE-númer og skiptir ekki máli hvort hann sé ferðamaður eða með fasta búsetu. Hér verður tíundað í grófum dráttum hvaða reglur gilda gagnvart Íslendingum og hvernig best er að snúa sér í þessum málum. Einnig vikið að skattalegu hagræði þessu tengt.

Ferðamaður eða föst búseta ?
Þar sem Spánn er innan evrópusambandsins og Ísland er aðili að EES samningnum þá njótum við nánast sömu réttinda á Spáni eins og innfæddir spánverjar og því þurfum við m.a. ekki að fá vegabréfsáritun eða eins konar “green card” til að geta dvalið á Spáni. Þó er það svo að Íslendingur sem dvelst í allt að 6 mánuði á ári hverju telst ferðamaður og þarf ekki formlegt dvalarleyfi. En að þeim tíma liðnum þarf viðkomandi hins vegar að yfirgefa landið ella sækja um varanlegt dvalarleyfi eða "Residence permit (card)". Þó skal þess getið að ekki er unnt að dvelja samfellt í 6 mánuði á Spáni sem ferðamaður nema hafa eftir fyrstu 3 mánuðina sótt sérstaklega um framlengingu um aðra 3 mánuði. Þetta kallast "Permanencia" og er sótt um þetta með því að fara á næstu lögrelgustöð og fá þennan "Permanencia" stimpil í passann. Þegar þetta er gert er nauðsynlegt að fara með á lögreglustöðina passann, 2 ljósmyndir og eitthvað sem sannar það að þú getur haldið þér uppi á næstu 3 mánuðum. Bankayfirlit gæti hér dugað en flest staðaryfirvöld miða við ákveðna lágmarksfjárhæð um 600 evrur á mánuði í innkomu eða í eign til að framfleyta fullorðnum einstaklingi á mánuði. 

Ef þú ætlar á annað borð að setjast að á Spáni þá eru í rauninni ekki betra að vera í landinu þessa 6 mánuði á ferðamannaleyfi. Það er alltaf betra að sækja strax um dvalarleyfi því sá sem dvelur í landinu þessa 6 mánuði er t.d. orðinn skattskyldur á Spáni hvort sem er og þarf að greiða tekjuskatt. Það er í raun miklu meira vit í því að sækja strax um dvalarleyfi "resident card" því það eru ákveðin skattahlunnindi sem fylgja því að vera með dvalarleyfi og fasta búsetu á Spáni. Vikið verður nánar að þessum hlunnindum hér að neðan. 

Að sækja um NIE númer - spænska kennitölu. 
Íslendingur á Spáni, sem ætlar ekki að setjast þar að en hins vegar opna bankareikning, kaupa bíl eða fjárfesta í fasteign, þarf ætíð að sækja um NIE númer. 

Íslendingur á Spáni, sem ætlar að setjast þar að og sækja um dvalarleyfi er þar með um leið að sækja um NIE númer. Þegar dvalarleyfið er veitt liggur um leið NIE númerið fyrir. 
 
Eins og sést hér að framan þá er NIE númerið nauðsynlegt á Spáni til ýmissa athafna en númerið hefur þann tilgang að gera grein fyrir þér fyrir spænskum skattayfirvöldum. 

Ferlið við að sækja um NIE númer þarf ekki að vera flókið mál ef eftirfarandi ferli er fylgt eftir. Einnig er unnt að leita aðstoðar hjá Gestoria (opinberir sýslunarmenn sem aðstoða einstaklinga og fyrirtæki við allt það sem varðar opinberar erindagjörðir, færslu bókhalds ofl.) en slík aðstoð getur kostað um 100-150 evrur. Ef þú vilt sækja um NIE númerið upp á eigin spýtur þá er ferlið að fara á næstu lögreglustöð og verða sér úti um umsóknareyðublað. Einnig er unnt að sækja um eyðublaðið hér. (þarf Adobe Acrobat forrit)

Leiðbeiningar um hvernig fylla á út umsóknareyðublaðið fyrir NIE númer:

1 DATOS PERSONALES      þýðir      persónulegar upplýsingar

1er Appellido:                       þýðir      eftirnafn (hafa eins og í vegabréfi)

2Apellido                              þýðir      eftirnafn nr:2 (hafa eins og í vegabréfi)

Nombre:                               þýðir      nafn (hafa eins og í vegabréfi)

Fecha de Nacimiento:           þýðir      fæðingard. (nota 2 stafi fyrir dag og mán.)

Lugar de nacimiento:             þýðir      fæðingarstaður

Sexo:                                   þýðir      H fyrir karl en M fyrir konu – merkja með X 

Estado Civil:                          þýðir     S fyrir ógiftur C fyrir giftur V fyrir                 
                                                        ekkju/ekkill eða D fyrir skilinn

País de nacimiento                þýðir      Fæðingarland

País de nacionaldad              þýðir      Þjóðerni

Nombre del padre:                 þýðir      nafn föður

Nombre de la madre:             þýðir      nafn móður

Domicilio en Espania             þýðir      Heimilisfang á Spáni - ef þú hefur ekki       
                                                         neitt ennþá þá skilarðu auðu

Locilidad:                              þýðir      Bæjarfélag á Spáni – sleppa ef þú hefur 
                                                         ekki fast heimilsfang

CP:                                      þýðir      Póstnúmer á Spáni

Provincia:                              þýðir      Sýslan á Spáni.


SECTION 2

Hér á að fylla inn ástæðuna fyrir umsókninni þ.e. ástæðurnar geta verið þrenns konar. “Economic” – “Professional” eða “Social”. Ef ástæðan fyrir umsókninni er vinnutengt þá hakarðu í “professional” en ef ástæðan er fasteignakaup þá hakarður í “social”.

3 DOMICILIO A EFFECTOS DE NOTIFACACIONES

Hér á ekki að fylla neitt út – skila auðu

SIGN – skrifa undir umsóknina neðst þar sem stendur “firma de solicitante”

Þegar lokið hefur verið við að fylla út umsóknina þarf að skila henni inn á næstu lögreglustöð ásamt ljósmynd. Einnig þarftu að hafa meðferðis vegabréfið. Þetta er allt og sumt. Þér mun verða tilkynnt að koma aftur eftir um 4 vikur til að fá NIE númerið sem þér hefur verið úthlutað. Þetta NIE númer er eins og kennitalan sem við þekkjum á Íslandi og er nauðsynleg til ýmissa verka á Spáni t.d. við að opna bankareiking. Þó er unnt að opna bankareikning á grundvelli vegabréfsnúmersins þar til NIE númerið liggur fyrir enda mun NIE-númerið verða sent beint í bankann þegar númerið liggur fyrir. 
 
Að sækja um dvalarleyfi - varanlega búsetu -"resident card": 
Þeir sem hafa sest að á Costa Blanca svæðinu og dvelja samfellt á Spáni í allt að 6 mánuði eða lengur er skylt að þeim tíma liðnum að fara annaðhvort úr landi eða sækja um formlegt dvalarleyfi eins og áður segir. Íslendingur sem vill setjast að á Spáni er skylt að sækja um dvalarleyfi “resident card” eftir þessa 6 mánuði í síðasta lagi en þess má geta að þetta er mjög einfalt ferli og sjálfvirkt og lítil sem engin hætta á höfnun. 

Þó verður að gera eftirfarandi til að geta haft eða öðlast fasta búsetu á Spáni:

- Skrá sig með lögheimili í Ráðhúsi viðkomandi bæjar
- Sækja um spænska kennitölu (NIE númer)
- Sækja um dvalarleyfi á lögreglustöð viðkomandi bæjar
- Sækja um sjúkratryggingarkort (E-121 eða E-111) eða kaupa einka tryggingu
- Sjá til þess að ökuskírteinið sé stimplað hjá viðkomandi bæjarfélagi 
- Borga sína árlegu skatta sem góður og gegn skattborgari
- Nauðsynlegt að útbúa erfðaskrá ef fasteign er í spilunum. 

Umsóknarferlið fyrir dvalarleyfi :
Sótt er um dvalarleyfið á næstu lögreglustöð. Með umsóknareyðublaðinu skal fylgja:     
            - 3 passamyndir 
            - Vegabréfið sjálft og 2 eintök af ljósrituðu staðfestu vegabréf
            - Veðbókarvottorð af fasteigninni þinni eða húsaleigusamning 
            - Vinnusamningur (a.m.k. 6 mán gamlan bæði frumrit og eitt afrit) 
            - Staðfestingu frá banka að kostnaðurinn við umsóknina 4 evrur sé þegar greiddur
            -  Staðfestri yfirlýsingu frá bankanum þínum að þú eigir annað hvort nógu mikið 
            inni á reikningi til að framfleyta þér eða að fjárhagslega innkoma þín sé trygg.         
            Þetta skjal er ekki nauðsynlegt en hins vegar oft krafist.  

Eins og sést hér að ofan þá er umsækjandi í raun að staðfesta það gagnvart spænskum stjórnvöldum að hann sé aflögufær, hafi vinnu og fast aðsetur. Ella fær hann ekki dvalarleyfi. 

Að sækja um sjúkratrygginarkort (E-121) - “social security number”:
Allir vinnandi menn á Spáni hvort sem þeir eru launþegar eða í eigin atvinnurekstri þurfa að greiða í almannatryggingakerfið og til að geta verið löglega skráður til vinnu þarf þetta kort. Einnig á enginn rétt á neinni læknisaðstoð úr spænsku heilbrigðiskerfi nema hann hafi greitt til kerfisins. Eins og vikið hefur verið að áður þá gildir íslenskt sjúkratryggingarkort aðeins tímabundið eða á meðan handhafi þess er sem ferðamaður á Spáni eða þar til hann flytur lögheimilið til Spánar. Þó eru íslenski eftirlaunaþegar sem þiggja sinn ellilífeyrir frá Íslandi hér undanteking en það er nóg fyrir þá að sækja um sjúkratrygginarkort á Íslandi og njóta þeir fullra réttinda á við innfædda óháð því hvað þeir dvelja lengi á Spáni. 

Umsóknarferlið fyrir sjúkratryggingarkorti (E-121) á Spáni: 
Farið er á næstu almannatryggingaskrifstofu með vegabréfið sjálft og afrit af því. Umsóknareyðublaðið er staðlað og fyllt út með nauðsynlegum perónulegum upplýsingum. Þeir gefa þér því næst sérsakt bráðabirgðaskírteini með þínu almannatrygginganúmeri (social number) og senda þér síðan endanlegt skírteini (E-121) í pósti. 
Að lokum má benda á það að umsækjandi um spænsk sjúkratryggingarkort þarf ekki að vera komin með vinnu eða NIE númer (kennitölu) til að fá almannatrygginarnúmer. Sjá nánar annars staðar hér á síðunni um Heilbrigðis- og tryggingarkerfið.

Ferðamaður eða föst búseta  - Skattaleg hlunnindi ?
Það er af sem áður var þegar útlendingar stunduðu það að yfirgefa Spán á 6 mánaðar fresti en komu strax aftur til baka eingöngu til að viðhalda því að vera ferðamaður á Spáni. Þetta var gert vegna skattalegra fríðinda sem fólust í því að vera ferðamaður. Nú er þessu öfugt farið og nokkuð ljóst að það margborgar sig að sækja um dvalarleyfi "Resident card" um leið og flutt er til landsins. Helstu ástæður þess eru þessar og er ekki um tæmandi talningu að ræða:

- Íslenskur eftirlaunaþegi með fasta búsetu greiðir ekki skatt af söluhagnaði fasteignar
- Íslendingur með fasta búsetu greiðir aðeins 15% skatt af söluhagnaði á meðan sá sem ekki hefur fasta búsetu greiðir 35%
- Íslenskur seljandi fasteignar með fasta búsetu þarf ekki að undirgangast það skilyrði að 5% af söluverðinu sé haldið eftir af opinberum stjórnvöldum til greiðslu væntanlegra skatta ef einhverjir verða. 
- Íslendingur með fasta búsetu er undanþegin ákveðnum "wealth tax" upp að ákveðnu marki á meðan einstaklingar sem ekki eru með fasta búsetu þurfa að greiða strax frá fyrstu evru. 

Hér að ofan hefur aðeins verið drepið niður á helstu atriðum en öllum er velkomið að senda frekari fyrirspurnir á [email protected] og við upplýsum þig frekar. Framangreindar upplýsingar eru fengnar m.a. hjá spænskum lögfræðingum sem eru reiðubúnir að bjóða fram þjónustu sína hvenær sem. Hafið samband.