Atvinna og atvinnuleyfi

Nokkuð hátt atvinnuleysi er á Spáni í samanburði við það sem þekkist á Íslandi en þó má segja að allir duglegir og drífandi einstaklingar sem koma til Spánar með opnum huga geti fengið vinnu á Costa Blanca svæðinu og sérstaklega sumarmánuðina þar sem svæðið er mikið ferðamannasvæði. Ferðamannavertíðin sem stendur yfir í 4-6 mánuði á ári kallar á mikið vinnuafl. Verður nú 
vikið að nokkrum atriðum sem gott er að vita.


Þarf atvinnuleyfi á Spáni ? 
Innan landa Evrópusambandsins og EES þarf ekki formlegt atvinnuleyfi áður en komið er inni í viðkomandi land. Íslendingar geta því starfað á Spáni án formlegra atvinnuleyfa. En þar með er ekki öll sagan sögð. Eins og áður hefur verið vikið að þá getur Íslendingur dvalið á Spáni sem ferðamaður í 3 mánuði án nokkurra leyfa en getur síðan sótt um framlengingu um aðra 90 daga til að dveljast sem ferðamaður. Við þessa framlenginu þarf að gera grein fyrir því að annað hvort einhverja innkomu sé að hafa eða einhver peningur sé inni á bankareikningi. Hér vilja sem sagt spænsk stjórnvöld vita hvort ferðamaðurinn sem vill dvelja lengur í landinu eða í aðra 3 mánuði hafi vinnu. En eftir samtals 6 mánuði þarf að sækja um dvalarleyfi og þá um leið þarf að leggja fyrir spænsk stjórnvöld m.a. allar upplýsingar um ráðningarsamning við vinnuveitanda og önnur sannanleg gögn um að umsækjandi hafi atvinnu t.d ef hann er sjálfstæður atvinnurekandi.  

Atvinnuleit og réttindi.
Ef þú ætlar þér að dvelja til lengri tíma á Spáni þá er mjög mikilvægt að ráða sig hjá vinnuveitanda til að minnsta kosti 6 mán þar sem það er algjört lágmark til að fá formlegt dvalarleyfi - “resident card” . 6 mánaða ráðningarsamningur verndar þig einnig og gefur þér full réttindi á við innfædda. Það verður þó að viðurkennast að vinnuveitendur margir hverjir hafa verið tregir til að ráða manneskjur til sín á pappírum nema til styttri tíma en 6 mánaða. Það er þá sérstaklega í því ljósi að ferðamannaiðnaðurinn á þessu svæði er sveiflukenndur og mikil  þörf á auknu vinnuafli er oft ekki nema í 4-6 mánuði á ári eða yfir há sumarið. Aðalmálið hér og það mikilvægasta er að það sé gerður formlegur ráðningarsamningur hvort sem hann er til 3, 6 ða 9 mánaða því ef þú ert gripinn við vinnu án samnings getur þér verið vísað úr landi. Einnig er vinnuveitandinn sektaður fyrir vikið þannig að þetta er hagsmunamál fyrir báða aðila. Eitt ber líka að hafa í huga að ef vinnuveitandinn vill halda í þig þá verður hann að gera við þig langtíma ráðningarsaming þar sem honum er skv. spænskum lögum ekki heimilt að gera nema einu sinni stuttan ráðningarsaming við starfsmann sinn. Hér þarf að huga að ýmsu. 

Vinnumarkaðurinn og laun. 
Helsti munurinn á vinnumarkaðnum á Spáni og á Íslandi er að laun á Spáni eru mun lægri en á Íslandi en launin geta verið allt niður fyrir helming þess sem greitt er á Íslandi en þetta fer þó allt eftir starfi og starfsstéttum.
Sem dæmi um vinnulaun má nefna að nýlega var auglýst eftir iðnaðarmanni hjá þýskum byggingarverktaka og voru heildarmánaðarlaun 1.400 evrur. Ætla má að sami maður hefði helmingi hærri laun á Íslandi fyrir sambærilegt starf. 
En á móti kemur, er skattkerfið annars vegar öðruvísi og hins vegar mun ódýrara að lifa á Spáni. Einnig má hér til ennfrekari upplýsinga vitna í nýlegar þjóðhagstölur á Spáni sem sýna að meðallaun á starfsmann á Spáni eru 19.802 evrur á ársgrundvelli og eru konur með um 71% af þeirri tölu í meðal árslaun. 

Einnig ber að hafa í huga, í allri þessari yfirferð á launasamanburði á milli Spánar og Íslands, að allt annað lífsmunstur og önnur lífsspeki er á Spáni í samanburði við það lífsgæðakapphlaup eftir veraldegum gæðum sem tíðkast hefur á Íslandi og alþekkt er orðið. Segja má að lífsgildin á Spáni séu hreinlega allt önnur og forgangsröðunin einnig "eðlilegri". 
Í þessu samhengi með launin þá verður að segjast eins og er að það reynist einstaklingum á Costa Blanca svæðinu oft mun hagstæðara að bjóða fram starfskrafta sína sem sjálfstæður verktaki þ.e.a.s. í gegnum sitt eigið fyritæki en auðvitað fylgja því alltaf kostir og gallar eins og gengur og gerist. 

Einnig má geta þess að vegna evrópusamstarfsins og aðildar Íslands að EES samningum þá ber spænskum stjórnvöldum að viðurkenna íslensk starfsréttindi og prófgráður ef þau uppfylla ákveðnar kröfur sem spænsk stjórnvöld gera. Ýmiss starfsréttindi eins og læknir, hjúkrunarfræðingur, arkitekt, verkfræðingur ofl eru sjálfkrafa viðurkennt alls staðar innan evrópusambandisins og þ.á.m. á Spáni en sækja þarf hins vegar um það til viðkomandi ráðuneytis og skila inn viðhlítandi gögnum. 

Vinnutíminn er svolítið öðruvísi en á Íslandi en hinn venjulegi vinnutími á Spáni miðast við fyrir og eftir Siesta en hún stendur yfir í 2-3 klukkustundir frá yfirleitt kl 14-17 á daginn. Fyrir vikið er unnið lengur fram á kvöld en þetta vinnumunstur er þó ekki endilega ávallt viðhaft á Costa Blanca svæðinu þar sem mörg fyrirtæki og verslanir á svæðinu eru í eigu norður evrópubúa sem halda ekki í þessa gömlu hefð. 

Margir sem koma til Spánar fara út í sjálfstæðan atvinnurekstur og hefur það oftar en ekki reynst arðbær leið fyrir ýmsa en þó verður að huga vel að ýmsum atriðum hér og fá faglega ráðgjöf og leiðsögn ef þessi leið er farin. Að stofna eigin rekstur á Spáni getur verið mikil þrautarganga og margt sem ber að varast. Mælt er með því að leita til lögfræðings í slíkum tilvikum. 

Nauðsynlegt að muna að sækja þarf um NIE númer til að geta stundað vinnu svo og sjúkratrygginarkort E-121. Sjá betur hér annars staðar á síðunni. 

Vinnumiðlanir eru ýmsar á netinu og einnig er góð reynsla að fylgjast með atvinnuauglýsingum í staðarblöðunum t.d. Costa Blanca news. Einnig er mjög gott að nýta öll möguleg sambönd við einstaklinga á svæðinu hvort sem eru Íslendingar eða aðrir.

Þess má geta að á vegum Vinnumálastofnunar er starfandi EES vinnumiðlun sem veitir mjög góðar og haldbærar upplýsingar og ráðgjöf varðandi atvinnuleit á Spáni og allt annað það sem gott er að vita um atvinnumarkaðinn á Spáni. 


Áhugasamir um atvinnu og atvinnumál á Costa Blanca svæðinu er velkomið að senda okkur fyrirspurn á [email protected] og við reynum að liðsinna þér.