Að flytja

Fyrir marga er það stór og mikil ákvörðun að stíga þau skref að flytjast búferlum til Spánar annað hvort til skemmri eða lengri tíma. Áður en formleg ákvörðun um flutning frá Íslandi til Spánar er tekin þarf að huga að ýmsu og því verður hér að neðan tíundað í nokkrum liðum að hverju þarf helst að huga.

  
Að taka ákvörðunina: 
Margir kannast við það ljúfa líf að skella sér í nokkra vikna frí til Spánar og flatmaga á ströndinni í sól og hita á daginn og skella sér síðan út að borða á kvöldin. Þessi sumarfríslífstíll og gott veðurfar er að sjálfsögðu aðlaðandi lífsmynstur ásamt ýmsu öðru eins og lægra verðlagi ofl. En við ákvarðanatökuna verður að huga að ýmsu og meðal annars því að langtíma búseta er allt öðruvísi en það sem þú upplifir í tveggja til þriggja vikna sumarfríi á Spáni. Þú þarft að búa þig undir breyttan lífstíl sem hentar kannski ekki hverjum sem er og það er um að gera að leita ráða og upplýsingar hjá öðrum íslendingum sem hafa fetað þessi spor og flutt til Spánar annað hvort til lengri eða skemmri tíma. Þar getum við hjá costablanca.is komið að liði. Velkomið að senda fyrirspurn á [email protected]

Hjá þér vakna ýmsar spurningar um þína réttarstöðu í nýju landi og hvort þú sért að missa einhver réttindi við að flytjast búferlum erlendis til lengri tíma. Þú þarft að vita til dæmis hvernig verður um öll þín persónulegu réttindi sem þú hefur bæði áunnið þér inn og sjálfkrafa hlotið sem íslenskur ríkisborgari og eins á hvern hátt hvernig þessi sömu réttindi og opinberar skyldur þínar geta breyst í nýju landi. Þú vilt vita t.d. hvernig fer með áunninn lífeyrir, ellilífeyrinn, almanna tryggingakerfið, bótagreiðslur, meðlagsgreiðslur og margt fleira þegar þú flytur til Spánar. Hvernig þú ert tryggður ef þú veikist eða slasast á Spáni og hve háa skatta þú greiðir í nýju landi og eins hve háum launum þú átt von á í nýju starfi á Spáni osfrv. Hér þarf að huga að ýmsu en öllum þessum spurningum og öðrum að svipuðum toga reynum við að svara og miðla af reynslunni. 
Það er greinilegt að það þarf að hyggja að mörgu en ef þú ert þessi manneskja sem vilt að hlutirnir gerist helst í gær þá ertu að flytja á rangan stað. 

Að flytjast með börn: 
Mörgum vex það í augum að rífa börn upp með rótum frá heimalandi sínu og flytjast á nýjar framandi slóðir. Nauðsynlegt er fyrir fjölskylduna að ræða opinskátt um flutninginn og velta málum fyrir sér í sameiningu. Eitt er víst að börnin verða reynslunni ríkari og ný upplifun víkkar hjá þeim sjóndeildarhringinn. En auðvitað er það persónubundið hvernig börn aðlagast nýjum aðstæðum í nýju landi. Reynslan sýnir að því yngri sem börnin eru þeim mun betur gengur þeim að aðlagast. Eldri krakkar og unglingar sem ekki tala spænsku eiga oftar erfiðara með að aðlagast nýju umhverfi en þau vilja stundum einangrast í skóla, fá heimþrá og finna til vanlíðunnar. En þetta er allt persónubundið en nokkuð ljóst er að foreldrar þurfa að veita hér góðan stuðning og sýna aðstæðum skilning. Skólarnir koma á móts við þessar aðstæður þar sem þetta er alþekkt innan skólakerfisins og bjóða skólarnir m.a. upp á sérkennslu í tungumálinu fyrir þá útlendinga sem koma í skólana. Einnig verða foreldrarnir að vera duglegir að nema nýtt tungumál því það auðveldar til muna að geta aðstoðað börnin í heimanámi og frístundum. Reynslan sýnir að þetta er allt spurning um tíma. Það má alveg reikna með að það geti tekið unglinginn nokkra mánuði og jafnvel upp í 1 - 2 ár að aðlagast sem skildi. 
Gátlisti fyrir flutning
Ákveða hvaða eigur þú vilt flytja með til Spánar og hvaða hluti þú vilt skilja eftir eða losa þig við og selja eins og t.d. bifreið. Þó er ekki endilega svo óhagstætt að flytja bílinn með sér til Spánar bæði þar sem flutningskostnaðurinn á honum er mjög hagstæður (sbr. flutningur á venjulegum fólksbíl um rúmar kr. 65.000) og eins að endursöluverð á notuðum bifreiðum er nokkuð hátt á Spáni miðað við önnur Evrópulönd. Sjá nánar hér Bílar og samgöngur á Spáni.    

Afla þér upplýsinga og tilboða frá skipaflutningsfyrirtækjum varðandi kostnað við flutning. Skv. reynslunni áætla skipafélögin að það taki alveg um 3 vikur að senda gám frá Íslandi á áfangarstað á Costablanca svæðið og því nauðsynlegt að gera góða tímaáætlun. Þessi tímaáætlun er þó fljót að fara úr böndunum ef flutningsgögn eru ekki nægjanleg skýr en þá stoppar gámurinn við tollaafgreiðslu.

Verða sér úti um pappakassa, merkimiða og annað það sem nauðsynlegt er að hafa þegar búslóðinni er pakkað og hún merkt. Nauðsynlegt að undirbúa þetta vel og vera að búinn að pakka sem mestu áður en gámurinn kemur á staðinn þar sem það getur reynst dýrt að láta gáminn standa auðan fyrir utan heimilið í einhvern tíma. Gott er að kaupa bylgjupappa og ósamsetta kassa hjá Kassagerðinni bóluplast hjá Plastprent. 

Ganga úr skugga um að það séu engin lán á þeim hlutum sem þú ætlar að flytja með þér sbr. heimilistæki, bifreið ofl. 

Kaupa flugmiða fyrir alla fjölskylduna aðra leið. 

Ganga úr skugga um að allir pappírar séu í höfn vegna húsnæðismála á Spáni. það getur reynst betra vegna umsóknar um dvalarleyfi en það þarf þó ekki að liggja alveg fyrir fyrr en eftir 6 mánaða dvöl. Sjá nánar um dvalarleyfi hér

Verða sér úti um nauðsynlega pappíra hjá íslenskum stjórnvöldum sem nauðsynlegt er að hafa með sér til Spánar fyrir alla fjölskylduna vegna skráningar á búsetu þar, skólamál ofl. Þessir pappírar eru m.a. fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, heilsufarsbækur, einkunnarspjöld barna, trygginarskírteini barna ofl. Þessi gögn er ýmist unnt að fá á ensku eða jafnvel spænsku t.d. hjá Þjóðskránni en nauðsynlegt er að gögnin séu að minnsta kosti á ensku. Nauðsynlegt að ljósrita þessi eintök og hafa nokkur eintök í farteskinu.

Tilkynna formlega brottflutninginn til opinberra aðila sbr. Þjóðskrá vegna breytingar á lögheimili, bankar, Orkuveitan ofl. 

Athuga með skólamálin á Spáni fyrir krakkana. Sjá nánar um skólamálin hér 

Athuga með tungumála- eða aðlögunarnámskeið fyrir fjölskylduna áður en/eða þegar komið er til Spánar. 

Athuga með flutning á gæludýrum. 

Athuga með að vegabréf, kreditkort og ökuskírteini séu í fullu gildi. Verða sér einnig úti um almannatryggingaskírteinið E121 sem veitir fullan rétt að spænska almanna tryggingarkerfinu. Sjá nánar umfjöllun hér um heilbrigðislerfið.

Athuga með öll tryggingamál bæði hvað varðar flutninginn og eins allar trygginar þegar komið er til Spánar. Þó íslendingar eigi fullan aðgang að spænsku heilbrigðiskerfi er 60% af heilbrigðiskerfinu einkarekið og því vegur svolítið þyngra fyrir einstakling að vera vel tryggður fyrir sjúkrahúsinnlögnum og frekari læknameðferð. Sjá nánar um heilbrigðiskerfið hér.  
  
Flutningur á búslóð: 
Áður en pantaður er gámur er réttast að meta það hvort panta þurfi 20 feta eða 40 feta gám en á heimasíðum Eimskips og Samskips er góð reiknivél sem hjálpar til við að finna þetta út. Því næst er leitað eftir tilboðum frá fyrirtækjunum en þeir sigla einu sinni í viku frá Íslandi til Rotterdam en þaðan flytja þeir gáminn venjulega landleiðina til Spánar. Mismunur á tilboðum getur alltaf verið einhver. Þegar gámur er pantaður kemur hann daginn eftir pöntun og getur þú haft hann í 7 daga til að raða í hann skipulega áður en byrjað er að reikna gámaleigu. Síðan er mikilvægt að skrá allt það sem fer inn í gáminn niður á svokallaðan innihaldslista (á ensku - sýnishorn á heimasíðu flutningsfyrirtækjanna) en þessi innihaldslisti er mikilvægur þegar gámurinn er tollaafgreiddur. Flutningsfyrirtækin sjá um öll pappírsmál varðandi tollaafgreiðslu ofl. og því betra sem gengið er frá búslóðinni á tollapappírum við skráningu þeirra í gám því auðveldara verður að flytja gáminn í gegnum tollakerfið óáreittan. 
Þegar lokið er við að fylla í gáminn er nauðsynlegt að kalla til svokallaða farmverndarfulltrúa en þeir fara yfir gáminn og innihald hans og innsigla en þess má geta að flutningafyrirtækin ná ekki í gáminn fyrr en farmverdarfulltrúinn hefur tekið út innihald gámsins og gefið út farmverndarskírteini. Nauðsynlegt er að ræða við farmverndarfulltrúa áður en byrjað er að pakka inn í gám þar sem hann lætur þig fá mikilvæg gögn til að fylla út og merkja kassa með. 
Gámnum ber síðan að skila inn daginn fyrir brottför frá Íslandi en siglingin yfir til Evrópur tekur um viku en lengri tími getur þó liðið fram að afhendingu gámsins þar sem erlendir starfsmenn flutningsfyrirtækisins þurfa að ganga frá öllum pappírsmálum.  

Frekari upplýsingar um flutning á búslóð frá Íslandi til Spánar má finna á vefsíðum:

Breyting á lögheimili - breyting á réttindum

Samkvæmt íslenskum lögum verður sá sem hættir að eiga lögheimili hér á Íslandi og flyst til útlanda að tilkynna það áður en hann fer og gefa upp fullt aðsetur sitt erlendis. Þó eru undantekningar frá þessu ef einstaklingur er í námi eða dvelst erlendis vegna veikinda. Það verður einnig að hafa í huga að Íslendingar mega þó dveljast í 3 mánuði á Spáni sem ferðamenn án þess að þurfa sækja um frekari leyfi á Spáni eða aðhafast nokkuð t.d. ef húsnæðismál liggja ekki ljós fyrir og ekki ljóst með lögheimili erlendis. Eftir þessa 3 mánuði verður að tilkynna inn lögheimilisbreytingarnar enda verður að sækja þá um formlega framlenginu á dvölinni á Spáni. Sjá frekari upplýsingar hér um dvalar- og atvinnuleyfi. 

Lögheimilisbreytingunum fylgir ákveðinn réttindamissir á Íslandi en um leið stofnast til nýrra réttinda á Spáni þegar lögheimili hefur verið skráð þar. Verður nú stuttlega minnst á nokkur atriði:
Íslendingar hafa t.d. ekki lengur kosningarétt til sveitastjórnarkosninga en þó halda þeir kosningarétti sínum til alþingiskosninga eða í 8 ár frá því lögheimili var flutt frá Íslandi. 

Íslendingar missa ekki réttindi sín til lántöku hjá Íbúðalánasjóði þó lögheimilið hafi verið flutt

Íslendingar missa rétt sinn til félagslegrar þjónustu á Íslandi um leið og lögheimili er flutt. 

Þjónusta við fatlaða svo og fæðingarorlof er bundið við íslenska búsetu. 

Íslendingar missa rétt til barnabóta, dánarbóta, meðlags ofl um leið og búseta er flutt.

Íslendingar sem hafa þegið styrki eða bætur frá Tryggingastofnun Ríkisins missa þessar greiðslur yfirleitt frá íslenska ríkinu við lögheimilisskiptin:

Um leið og Íslendingar missa framangreind réttindi sín og mörg önnur við flutning á lögheimili getur stofnast um leið réttur til sambærilegra bótagreiðslna og fjárhagslegrar aðstoðar hjá búsetulandinu (spænska ríkinu). Nauðsynlegt að gera sér þó grein fyrir því að vegna lægra verðlags á Spáni munu þær bætur að öllum líkindum vera nokkuð lægri að rauntölu en þær eru hér á Íslandi. Þó réttindi þessi eigi að flytjast á milli landa er ekki þar með í hendi að það gangi allt eftir þar sem tryggingarkerfið á Spáni getur verið öðruvísi en á Íslandi. En það er mjög mikilvægt fyrir þá bótaþega sem flytjast búferlum til Spánar að verða sér úti um réttindaskírteini Trygginastofnunar Ríkisins (Form E-121) til að viðhalda áunnum réttindum sínum. Mikilvægt að kanna þessi mál í þaula áður en haldið er af landi brott og hafa samband við þjónustumiðstöð Tryggingastofnunar Ríkisins.  Þetta getur allt verið nokkuð flókið ferli og um að gera að afla sér nægjanlegra upplýsinga um þessi atrið áður en haldið er af landi brott. 

Íslendingar með lögheimili á Spáni eru sjúkratryggðir þar eins og hér á landi en þurfa að verða sér úti um réttindaskírteini TR. Einnig er þetta gagnkvæmt á þann hátt að ef íslendingur flyst aftur til Íslands frá Spáni þá er hann sjúkratryggður á Íslandi ef hann hefur verið sjúkratryggður á Spáni síðustu 6 mánuði fyrir brottför. Leggja þarf fram staðfestingu þess efnis eða form E-104.

Það er einnig mjög mikilvægt fyrir alla þá sem eru að flytjast búferlum til Spánar að sækja um sjúkratryggingarkort fyrir alla fjölskylduna hjá Tryggingastofnun Ríkisins áður en haldið er af landi brott. Þetta kort staðfestir rétt korthafa til nauðsynlegrar heilbrigðisþjónustu á Spáni á meðan á dvöl þar stendur. En kortið fellur annað hvort úr gildi um leið og lögheimilið flyst frá Íslandi eða þegar 6 mánuðir eru liðnir af dvölinni á Spáni en á þeim tímapunkti er Íslendingurinn ekki lengur ferðamaður á Spáni og verður að yfirgefa landið að sækja um dvalarleyfi eða “Resident permit”. Sjá nánar um sjúkratryggingarkortið á heimasíðu Trygginarstofnunar Ríkisins.

Sækið um sjúkratrygginarkortið hér.  

Ef þið óskið eftir frekari upplýsingum um ákveðin atriði er koma ekki fram hér er velkomið að senda tölvupóst á [email protected] og við upplýsum þig og aðstoðum eftir bestu getu.