Golfvellirnir

Las Colinas - Spilum 3 hringi

Las Colinas er perlan meðal fjölmargra glæsilegra golfvalla á Alicante-svæðinu. Margverðlaunaður og í hávegum hafður meðal allra þeirra sem hann hafa spilað. Þá má nefna að völlurinn hefur verið notaður nokkur ár í röð í evrópsku mótaröðinni, ekki að ófyrirsynju. Um er að ræða golfvöll sem er par 71 og hannaður af Cabell B. Robinson, sem á heiðurinn af þekktum golfvöllum á borð við La Reserva í Sotogrande og Finca Cortesin á Costa del Sol á Spáni, svo einhverjir séu nefndir. Völlurinn er til þess að gera nýr – hann var tekinn í notkun 2010 –liggur í hring í dalverpi og er umlukinn hæðum. Er sérstaklega lagt uppúr því af Robinson að völlurinn falli inn í landslagið. Hver hola sérstök. Þeir sem kunna spænsku vita að colinas þýðir hólar; völlurinn er langt í frá flatneskjulegur. Þeir sem spila Las Colinas taka eftir því að öll umhirða er til fyrirmyndar, niður í smæstu atriði þannig að unun er að fara þar um. Í klúbbhúsinu má finna góðan veitingastað og bar. Þar er að finna allt sem nöfnum tjáir að nefna og tengist golfiðkun – þetta nálgast að mega heita paradís golfarans og er erfitt er að stilla sig um að nota efsta stig lýsingarorða þegar reynt er að lýsa Las Colinas. Fjölbreyttur gróður og landslag umlykja völlinn en einkennandi eru hólar, drifahvítar sandglompur og svo tjarnir og aðrar vatnshindranir.

Erfitt er að taka einhverja eina holu eða braut út úr til dæmis, þær eru allar skemmtilegar og hafa sín sérkenni en þó má nefna par 3 holurnar sem eru sérlega eftirminnilegar; 7. brautin er stutt eða um 100 metrar og 14. hola sem er ákaflega krefjandi, varin af læk sem rennur framan við flötina, vatni á vinstri hönd og risasandglompu á hægri hönd – hindranir eru allt í kringum flötina. Brautin sú er 155 m af gulum og 124 m af rauðum.

Las Colinas golfvöllurinn var valinn besti golfvöllur Spánar árið 2015 og sama ár valið "Spain Leading Golf Resort". Að auki hefur tímaritið Golf Magazine valið völlinn á lista yfir 100 "most exciting golf course in the world". Hér er því um einstakt tækifæri fyrir þátttakendur Costa Blanca Open 2017 að fá að spila þennan vinsæla og margrómaða golfvöll í þrígang. Heimasíða Las Colinas er hér 

 

 

 

 

Campoamor - Spilum 2 hringi

 

Campoamor-golfvöllurinn er alveg einstaklega friðsæll og vinalegur golfvöllur. Hann er staðsettur í ákaflega fögru umhverfi, skógi vöxnu – fimm kílómetra frá ströndinni, en í góðu skjóli frá hafgolunni og í tíu kílómetra fjarlægð frá flugvellinum í Alicante. Völlinn hannaði Carmelo Cqarcía Caselles og var hann vígður árið 1989, þannig að um er að ræða allgróinn völl sem margir Íslendingar þekkja vel; golfarar hafa verið duglegir að heimsækja Torrevieja-svæðið í gegnum tíðina og ekki að ástæðulausu. Völlurinn er 6203 metra langur og par 72. Þó Campoamor sé skógarvöllur, pálma- og appelsínutré ramma brautirnar inn, eru fæstar brautanna þröngar og völlurinn víðast hvar ekki refsiglaður. Ættu flestir að geta notið þess að spila völlinn burtséð frá því hversu langt þeir eru komnir í íþróttinni góðu. Fyrri níu holum vallarins má lýsa þannig en seinni níu eru fjölbreyttari en þar liggur völlurinn í meira landslagi. Má til dæmis nefna 11. holuna en þar geta þeir hinir djarfari og högglengri stytt sér leið yfir skóg inná flöt með velheppnuðu skoti. Og átt jafnvel möguleika á erni.

Einkennandi fyrir völlinn er einstaklega glæsilegt klúbbhús sem tengist fjögurra stjörnu hóteli sem þarna stendur. Sérlega gott veitingahús er við völlinn og á veröndinni þar fyrir framan má sjá til strandarinnar, frá Torrevieja til La Manga del Mar Menor, ef skyggni er gott. Góð æfingaaðstaða er við völlinn en á þar hefur hinn vinsæli golfþjálfari Ívar Hauksson starfað sem yfirkennari. Vart er hægt að hugsa sér betri stað til að bæta sitt golf en einmitt á Campoamor. Sjá nánar um Campoamor golfvöllinn hér